Komust á rafmagninu einu

Jónas (t.v.) og Jón Jóhann komnir á áfangastað á Ísafirði …
Jónas (t.v.) og Jón Jóhann komnir á áfangastað á Ísafirði í hádeginu. ljósmynd/Rafmögnuð ferð til Ísafjarðar

Rafbíll þeirra Jóns Jóhanns Jóhannssonar og Jónasar Guðmundssonar renndi í hlað á Ísafirði um klukkan hálfeitt í dag, rúmum 27 klukkustundum eftir að þeir lögðu af stað frá Reykjavík. Jónas segir ferðina hafa gengið vel en tilgangur hennar er meðal annars að sýna þörfina á fleiri hleðslustöðvum.

Félagarnir lögðu af stað frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík kl. 9 í gærmorgun en ferðalagið telja þeir það fyrsta frá höfuðborginni til Ísafjarðar á rafbíl. Jónas segir að þeir hafi þurft að koma sér í hleðslu alls staðar þar sem þeir höfðu tök á. Fyrst í hraðhleðslu í Borgarnesi, svo á Stykkishólmi á meðan þeir biðu eftir Baldri sem ferjaði þá yfir Breiðafjörð.

Þeir fengu meira að segja að komast í rafmagn um borð í ferjunni til að komast áleiðis til Þingeyrar þar sem þeir eyddu nóttinni og hlóðu bílinn sem er af gerðinni KIA Sol. Sú hleðsla fleytti þeim áfram lokaspölinn til Ísafjarðar.

Merki fyrir hleðslustöðvar er komið upp í Bolungarvík. Jónas vonast …
Merki fyrir hleðslustöðvar er komið upp í Bolungarvík. Jónas vonast til að það verði innleitt í reglugerði fljótlega. ljósmynd/Rafmögnuð ferð til Ísafjarðar

Ekki ýkja mikið mál að koma upp stöðvum

Engar hraðhleðslustöðvar eru á Norðvesturlandi og engin frá Borgarnesi að Akureyri. Tilgangur ferðalagsins var meðal annars að vekja athygli á skorti á hleðslustöðvum á landsbyggðinni.

„Þetta er mjög einfalt en það eina er hleðslutíminn því það eru bara heimilistenglar alls staðar. Þetta er ekki svo ýkja mikið mál að koma upp einhverjum aðeins öflugri stöðvum en heimatenglarnir eru,“ segir Jónas sem heldur úti vefsíðunni Samgöngur.is.

Þá segist Jónas reyna að vekja athygli á nýju merki sem Vegagerðin hefur hannað til að merkja hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Hann vonast til þess að merkið verði innleitt í reglugerð sem fyrst og því verði komið upp sem víðast til að auðvelda rafbílaeigendum lífið.

Til að komast heim til Reykjavíkur ætla félagarnir að hlaða bílinn yfir nótt í Bolungarvík. Sú hleðsla ætti að koma þeim aftur í ferjuna en svo segir Jónas að þeir þurfi að stoppa í 3-4 tíma í Stykkishólmi til að fylla á rafhlöðuna til þess að þeir nái í hraðhleðslustöðina í Borgarnesi.

Frétt mbl.is: Fyrsta rafmagnaða ferðin til Ísafjarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina