Á að veita ökumönnum félagsskap

Kirobo er algjört krútt
Kirobo er algjört krútt AFP

Bílaframleiðandinn Toyota hefur nú framleitt lítið vélmenni, það lítil að það passar í bollahaldara bifreiðar, sem á að veita ökumönnum félagsskap á meðan þeir keyra.

Vélmennið hefur verið nefnt Kirobo og er aðeins um 10 sentímetrar að hæð en getur spjallað við eiganda sinn og brugðist við ýmsum svipum. 

„Ó nei hvað gerðist?“ spyr hann unga niðurlúta konu til að mynda í kynningarmyndbandi Toyota.

Toyota mun hefja sölu á Kirobo í Japan á næsta ári og mun hann kosta jafnvirði 45 þúsund íslenskra króna fyrir skatt. Framleiðandinn hefur ekki greint frá áætlunum um að hefja sölu á Kirobo í öðrum löndum.

Vélmenið getur munað hvað eiganda þess líkar við og hvað ekki, sem og þær ferðir sem þeir hafa farið saman í að sögn Toyota. Þá er hægt að tengja Kirobo við bíla og heimilistæki til þess að gera samtölin líflegri.

Japanar hafa komist langt í þróun vélmenna síðustu ár. Er þar m.a. hótel sem er aðeins með vélmenni í vinnu og þá aðstoða þau einnig viðskiptavini í verslunum og bönkum.

Með vélmennunum er reynt að koma til móts við síhækkandi meðalaldur þjóðarinnar og minnkandi hóp fólks á vinnumarkaðinum. Eru uppi hugmyndir að koma vélmennum inn á dvalarheimili aldraðra og leikskóla í landinu sem gætu orðið til þess að fleiri konur færu út á vinnumarkaðinn.

Frétt CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina