Sala á rafbílum hefur dregist saman á milli ára en sala á tengi-tvinnbílum hefur nærri fjórfaldast á árinu. Samt sem áður eru nýskráðir bílar af báðum tegundum einungis um 3,9% af öllum nýskráðum bílum á landinu. Þetta kom fram á ráðstefnu um rafbílavæðingu hérlendis í morgun.
Þegar tveir mánuðir eru eftir af árinu hafa ríflega 150 rafbílar verið nýskráðir en í fyrra seldust tæplega 250 rafbílar. Meira en 400 tengi-tvinnbílar hafa verið skráðir hjá Samgöngustofu í ár en slíkir bílar ganga bæði fyrir rafmagni og eldsneyti.
Á ráðstefnunni sem var haldin af Íslandsbanka, Ergo og Samorku, kom fram að ekki sé nægilegur ávinningur af því að kaupa hreina rafbíla til þess að fólk fari út í fjárfestingu á þeim en rafbílar eru um 17% dýrari en venjulegir bílar þrátt fyrir að bera ekki innflutningsgjöld eða virðisaukaskatt.
7 ár tekur fyrir þá aukalegu fjárfestingu að borga sig tilbaka miðað við að bensínsparnaður á ári sé í kringum 133 þúsund krónur en meðalkostnaður við að kaupa rafbíl er um 700 þúsund krónum hærri.
mbl.is ræddi við Lovísu Árnadóttur upplýsingafulltrúa Samorku um rafbílavæðinguna en hún bendir á að í Noregi séu um 30% bílflotans rafbílar, sem stjórnvöld hafi markvisst stuðlað að.