79% hafa notað farsíma undir stýri

Umferð á Hringbraut í Reykjavík.
Umferð á Hringbraut í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nýleg könnun MMR sýnir að fjórir af hverjum fimm Íslendingum hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði, eða 79%. Alls hafa 45% ungra ökumanna sent og/eða lesið skilaboð í farsíma við akstur á þessu tímabili. 

Könnunin sýndi að fjöldi þeirra sem tala í símann án handfrjáls búnaðar hefur minnkað stöðugt frá árinu 2010 og farið úr 71% það ár í 64% árið 2014. Í ár mældist hann 56%, að því er kemur fram í tilkynningu frá MMR.

Fjöldi þeirra sem tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði hefur stóraukist úr 24% árið 2014 í 39% árið 2016.

23% skrifa eða lesa tölvupóst

23% svarenda sögðust hafa notað farsíma undir stýri til þess að skrifa eða lesa tölvupóst, SMS eða önnur skilaboð á síðastliðnum 12 mánuðum, samkvæmt könnuninni.  Þar af voru 45% ungir ökumenn á aldrinum 18 til 29 ára. 

Þar að auki sögðust 12% svarenda hafa notað farsíma undir stýri til þess að taka mynd, 12% til þess að fara á netið og 2% til þess að spila tölvuleik.

Með handfrjálsan búnað.
Með handfrjálsan búnað. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Tengist umferðaróhöppum

„Rannsóknir hafa bent til þess að mikil tengsl séu á milli notkunar farsíma undir stýri og umferðaróhappa. Sem dæmi má nefna að samkvæmt úttekt The American Safety Council frá árinu 2013 komu símtöl eða skilaboðaskrif í farsíma við sögu í að lágmarki 26% árekstra í Bandaríkjunum,“ segir í tilkynningunni.

Eldri og tekjulægri ólíklegri

Í könnuninni kemur fram að eldri aldurshópar voru mun ólíklegri til að nota síma undir stýri. Þannig sögðust 57% þeirra sem voru 68 ára eða eldri ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði, samanborið við 25% þeirra sem voru 50-67 ára og 12% þeirra sem voru 30-49 ára.

Tekjulægri hópar voru einnig ólíklegri til að nota farsíma undir stýri.

Fólk sem var búsett á höfuðborgarsvæðinu var mun líklegra til að tala í farsíma undir stýri með handfrjálsum búnaði, eða 46%, samanborið við 28% þeirra sem höfðu búsetu á landsbyggðinni.

Með farsíma í rassvasanum.
Með farsíma í rassvasanum. mbl.is/Golli

29% ungra ökumanna taka mynd

Af þeim 12% í heildina sem höfðu notað farsíma undir stýri til að taka mynd voru 29% þeirra á aldrinum 18 til 29 ára. Til samanburðar höfðu 12% þeirra sem voru á aldrinum 30-49 ára notað síma undir stýri til að taka mynd en innan við 1% þeirra sem voru 50 ára eða eldri.

Könnunin var framkvæmd dagana 7. til 14. nóvember 2016 og var heildarfjöldi svarenda 904 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is