Danir kaupa stóra bíla

Þótt jeppar og stórir bílar séu í sókn í Danmörku …
Þótt jeppar og stórir bílar séu í sókn í Danmörku þá trónir Peugeot 208 í efsta sæti yfir selda bíla þar í landi. mbl.is/Árni Sæberg

Fljótt skipast veður í lofti, alla vega á dönskum bílamarkaði. Fyrir tveimur til þremur misserum keyptu Danir aðallega smábíla en nú gerast þeir ólmir í stóra bíla.

Sjöunda árið í röð stefnir í aukna bílasölu í Danmörku og allt útlit er fyrir að öll fyrri sölumet verði slegin í ár.

Danir keyptu alls 208.000 nýja bíla í fyrra og spá sérfræðingar nú, að salan aukist um sex til átta prósent í ár og verði á bilinu 220 til 225 þúsund eintök.

Frá áramótum til septemberloka voru nýskráðir bílar 168.470 en á sama tímabili í fyrra var fjöldinn 155.121 eintök.

Þegar skoðað er hvaða bílar seljast best er ekkert útlit fyrir að vinsælasta bílnum í langan tíma – Peugeot 208 – verði rutt úr toppsæti sölulistans. Litlar sem engar líkur eru á að andlitslyftur Volkswagens Up velti þeim franska af stalli sem söluhæsti bíll Danmerkur 2016. Frá áramótum til októberloka voru nýskráð 7.246 eintök af 208 en 5.023 af VW Up sem var söluhæsti bíllinn í Danaveldi árið 2013 með 12.909 eintökum.

Ástæðan fyrir því að Up nýtur ekki eins mikilla vinsælda eru breytingar á kaupavenjum danskra neytenda; tilhneiging til að kaupa stærri og stærri bíla. Markaðshlutdeild smábíla hefur lækkað úr 23,6% í fyrra í 20,3% í ár.

Sá stærðarflokkur sem Peugeot 208 tilheyrir hefur einnig minnkað úr 32,1% í fyrra í 28,4% í ár. Hefur þessi flokkur verið sá langstærsti og nemur samdrátturinn því um 48.000 eintökum.

En á eftir hverslags bílum eru Danir? Jú, jeppar njóta vaxandi vinsælda meðal þeirra. Jeppar sem Nissan X-Trail, stórir fólksbílar, jafnvel úrvalsbílar eins og Audi A4 hafa verið í sókn. Frá áramótum til septemberloka 2015 jókst jeppasala um 7,6% og sala stórra bíla í milliflokki jókst um 8,9%. Í ár er aukningin 11,2% í jeppum og 10,2% í millistærðarbílum. Athyglisvert þykir einnig hvernig fjölnotabílar á borð við Volkswagen Touran og Ford S-Max hafa aukist í sölu. Aukningin var 4,9% í fyrra og 6,6 það sem af er árinu 2016.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina