Volkswagen mun koma til bílasýningarinnar í Genf í mars 2017 með nýtt módel sem nefnt hefur verið Arteon. Um er að ræða mesta lúxusbíl frá VW en hann verður ögn stærri og ofar í metorðastiganum en Passat.
Þrír mánuðir rúmir eru í sýninguna og hefur VW ákveðið að leyfa mönnum að finna reykinn af réttunum með því að birta skyssu er sögð er sýna hið raunverulega útlit Arteon.
Óhætt er að segja að útlínur bílsins séu skarpar og hönnunin spennandi. Hann verður fjögurra dyra og lögð er áhersla á gott pláss í farangursrýminu. Nafngiftin vísar til þessa að hluta. Fyrri hluti heitisins „Art“ skírskotar til listrænna tilfinninga sem honum er ætlað að kalla fram. Seinni hlutanum, eon-endingunni, er ætlað að minna á að hér sé um lúxusbíl að ræða.
Arteon kemur sem fyrr segir fyrst fram á sjónarsviðið á bílasýningunni í Genf í mars og fyrstu eintökunum verður svo ýtt úr vör sumarið 2017.