Niðurfelling á virðisaukaskatti á rafbílum verður framlengd um eitt ár samkvæmt tillögu í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Seljendur rafbíla hafa gagnrýnt að niðurfellingin sé aðeins framlengd til eins árs í senn. Verði fjárlög ekki samþykkt fyrir áramót myndi verð þeirra hækka um milljón og sala rafbíla stöðvast.
Virðisaukaskattur á rafbíla sem kosta allt að sex milljónir króna hefur verið felldur niður frá árinu 2012. Frá árinu 2013 hefur niðurfellingin verið framlengd til eins árs í senn. Það sama er uppi á teningnum í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í gær.
Rafbílasölur hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag enda torveldi það áætlanagerð þeirra að óvissa sé um hvort niðurfellingin verði framlengd aftur á hverju ári.
Stjórnvöld settu sér það markmið árið 2011 að 10% orku í samgöngum kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2020. Í fyrra var hlutfallið um 6% en árangur sem hefur náðst í því má að mestu rekja til íblöndunar í jarðefnaeldsneyti frekar en aukinnar hlutdeildar rafbíla í bílaflotanum.
Samkvæmt tölum Samgöngustofu er hlutfall hreinna rafbíla í bílaflotanum nú 0,5%. Ef tvinnbílar, sem ganga fyrir rafmagni og bensíni, eru teknir með er hlutfallið 2%. Bílar sem knúnir eru eingöngu með jarðefnaeldsneyti eru 97,5% allra skráðra fólks- og sendibíla á landinu.
Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, segist treysta því að undanþága rafbíla frá virðisaukaskatti verði samþykkt á þingi. Hann hefur hins vegar áhyggjur af því hvað gerist ef afgreiðsla fjárlaga tefst.
„Þá er hugsanlegt að næsta ár gæti byrjað án þess að þetta sé til staðar. Þá náttúrulega bara stoppar rafbílasalan,“ segir hann.
Þó að spáð sé að rafbílar verði samkeppnishæfari við hefðbundna bensínbíla í verði á næstu árum þá væru rafbílar enn umtalsvert dýrari ef þeir bæru sömu gjöld og bifreiðar sem eru knúnar jarðefnaeldsneyti. Það er enda á meðal forsendna niðurfellingar virðisaukaskattsins í fjárlagafrumvarpinu.
„Rafbílar myndu hækka sem nemur virðisaukanum. Þetta myndi hækka verð um að meðaltali um milljón myndi ég halda,“ segir Skúli.
Skúli bendir á að Íslendingar séu enn langt á eftir þeim markmiðum sem þeir hafi sett sér um hlutfall bíla sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Það hlutfall hafi lækkað á þessu ári vegna aukningar í almennri bílasölu.
Hann telur óskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld hafi ekki ákveðið að fella niður virðisaukaskatt á rafbíla til lengri tíma. Ákvæðu stjórnvöld að framlengja ekki niðurfellingu virðisaukaskattsins sæti fyrirtæki hans til dæmis uppi með lager af bílum sem þegar er búið að panta.
„Það er óþolandi að búa við það umhverfi að geta aldrei gert áætlanir um neitt svona. Ár eftir ár erum við að spyrja okkur hvort þetta verður framlengt og framleiðendur að spyrja okkur af hverju við erum að slá af pöntunum og svo framvegis. Þetta er óþægilegt svo ég kveði ekki sterkar að orði,“ segir Skúli.
Á vettvangi Grænu orkunnar, samstarfsvettvangs fjölda aðila um orkuskipti þar sem Skúli er í verkefnisstjórn, hafi komið fram hugmyndir um að setja markmið til einhverra ára. Þegar árangri hafi verið náð séu ívilnanir afnumdar í áföngum og markaðurinn látinn aðlaga sinn.
„Það hefur einhvern veginn ekki ennþá verið pólitískt hugrekki til að gera þetta sem ég reyndar skil ekki því ég held að það þurfi ekkert hugrekki í þetta. Ég held að þetta blasi við að þetta er þjóðfélagslega hagkvæmt,“ segir Skúli sem talar um þjóðþrifamál í þessu samhengi.
Jón Björn Skúlason, verkefnastjóri Grænu orkunnar, tekur undir það og segir það aðalatriðið til framtíðar að skýra umhverfið til lengri tíma í senn. Óvissan sé Þrándur í götu uppbyggingar innviða enda veigri fjárfestar sér við því að fjárfesta milljónir í henni þegar ekki er vitað hvernig leikreglurnar verði lengur en til eins árs í einu.
„Svona innviðir kosta miklar peninga. Ég veit ekki enn þann dag í dag hvort að rafbíll verði innfluttur á núll skatti eftir tuttugu daga. Þá ertu að tala um að hann fari upp í verðflokki og verði mjög þungur í sölu. Þá er hann orðinn miklu dýrari en sambærilegur bíll,“ segir Jón Björn.
Ofuráhersla hafi verið lögð á að skýra umhverfið til lengri tíma í senn í aðgerðaáætlun um orkuskipti samgöngum sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram í haust. Hún var ekki samþykkt áður en þingi var slitið.