Fleiri notaðir bílar fluttir inn

Talið er að um fjórir af hverjum tíu nýjum bílum …
Talið er að um fjórir af hverjum tíu nýjum bílum sem fluttir eru inn séu bílaleigubílar. mbl.is/Golli

Innflutningur á notuðum fólksbílum tók kipp á síðasta ári eftir að hafa verið í nokkurri lægð allt frá hruni. Á árinu 2016 voru fluttir inn 2.320 notaðir fólksbílar, þar af 480 bílar sem einstaklingar fluttu inn sjálfir. Notaðir bílar voru því rúmlega 11 prósent af öllum innflutningi á fólksbifreiðum á síðasta ári, samkvæmt tölum sem fengnar eru hjá Samgöngustofu.

Á tímabilinu frá 2005-2008 var mjög algengt að fólk flytti sjálft inn notaða bíla en í kjölfar efnahagshrunsins dró mjög úr þessu, samfara minni innflutningi á bílum almennt, nýjum eða notuðum.

Svo virðist sem einstaklingar og fyrirtæki séu á ný farin að sjá sér hag í að flytja inn notaða bíla. Á síðasta ári voru 1.840 notaðir bílar fluttir inn hingað til lands af fyrirtækjum, mun fleiri en árin á undan. Flestir þessara bíla eru fluttir eru inn af bílasölum til endursölu hér á landi. Einstaklingar fluttu sjálfir inn 480 notaða fólksbíla á síðasta ári, sem er það mesta frá hruni. Flestir bílar sem fluttir eru inn nú koma frá Þýskalandi og einhver hluti kemur frá Belgíu.

Verð hafa haldist uppi

„Aukningin er tilkomin mest vegna þess að það var ekkert flutt inn milli 2009 og 2011. Það er bara gat þarna sem vantar inn í flóruna. Við höfum einfaldlega verið að sinna því,“ segir Kolbeinn Blandon, bílasali hjá bílasölunni Diesel.is en það fyrirtæki hefur gert töluvert af því að flytja inn notaða bíla sem svo eru seldir aftur hér á landi.

Hann segir að undanfarið hafi verið sérstaklega mikil eftirspurn eftir notuðum vinnubílum. Úrval notaðra vinnubíla, sem og ýmissa fólksbíla, dugi einfaldlega ekki til að anna eftirspurn.

„Það er fullt af týpum sem vantar inn í flóruna og verðið hér heima hefur haldist of mikið uppi,“ segir Kolbeinn. Spurður að því hvort hann telji líklegt að framhald verði á innflutningi notaðra bíla segist hann telja svo vera. „Já, ég hugsa að það verði meira á þessu ári, gæti orðið 25% meira en á síðasta ári. Það er mikil endurnýjunarþörf og þessi janúarmánuður byrjar kröftuglega.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, bendir á að áhættan við það að flytja inn nýlega notaða bíla þurfi ekki endilega að vera meiri en að kaupa sams konar bíl hér á landi. „Ef þú kaupir bíl innan Evrópska efnahagssvæðisins nýturðu sömu ábyrgðarskilmála og ef þú kaupir bíl hér á landi. Umboð viðkomandi merkis hér á landi tekur þá yfir lögbundna tveggja ára ábyrgð.“

Spurður hvort þessi aukni innflutningur notaðra bíla segi eitthvað til um verðþróun á bílum hér á landi segir Runólfur að ef til vill hafi bílar ekki lækkað jafnmikið í verði hér á landi og annars staðar og þannig skapist tækifæri á markaðnum fyrir nýlega notaða bíla sem fluttir séu inn á hagstæðara verði.

„Það er eins og umboðin hafi verið frekar sein til að lækka verð á síðasta ári, en seinni hluta árs fórum við þó að sjá breytingu á því og margir sáu tækifæri í að lækka verð á nýjum bílum. Markaður fyrir notaða bíla hefur líka verið að lækka en það gerist hægt. Þar með skapast tækifæri til að flytja inn notaða bíla sem hægt er að bjóða á lægra verði.

Það er eðlilegt að fólk sjái þarna kauptækifæri og bara jákvætt ef slík dínamík er á markaðnum. Það heldur innlenda markaðnum á tánum.“

Eins og sjá má á grafi sem fylgir fréttinni hefur innflutningur fólksbíla tekið við sér að nýju. Þó ber að athuga að mun stærri hluti innfluttra bíla er bílaleigubílar en var fyrir hrun, en talið er að hlutur þeirra sé um 40% af nýjum bílum.

Vinnubílar vinsælir

Innflutningur á sendibílum tók kipp á árinu 2016 en alls voru fluttir inn 2.527 sendibílar á árinu, sem er það langmesta frá hruni. Góðærisárið mikla 2007 voru innfluttir sendibílar 2.904. Munurinn er sá að nú er mun hærra hlutfall innflutnings notaðir bílar. Nær þriðjungur innfluttra sendibíla (31%) á árinu 2016 voru notaðir bílar. Á árinu 2007 voru notaðir bílar aðeins um 13% heildarfjölda innfluttra sendibíla. Í flokk sendibifreiða falla t.d. litlir vinnubílar sem margir iðnaðarmenn og smærri fyrirtæki notast við í sínum störfum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina