Búist er við gríðarlegri aukningu í sölu rafbíla í Kína á þessu ári og það þrátt fyrir að ríkið sé tekið að draga úr ívilnunum vegna kaupa á slíkum farartækjum.
Að sögn kínverskra fjölmiðla er áætlað að 800.000 vistvænir bílar verði nýskráðir í landinu 2017 sem er 58% aukning miðað við sölu sambærilegra bíla á nýliðnu ári. Af aukningunni í ár er talið að kínverskir rafbílar verði um 352.000 talsins eða 46% af heildinni.
Kínverska ríkið hafði hvatt til kaupa á rafbílum bílum um árabil áður en salan tók við sér 2015. Meðal annars voru í boði sem svarar mörgum milljörðum króna í niðurgreiðslur til kaupa á vistvænum bílum til að draga úr loftmengun og örva kínverska bílsmiði til að komast í fremstu röð í smíði mengunarlausra bíla.
Ívilnanir voru lækkaðar um 20% í ársbyrjun og gera ráðamenn í Kína sér vonir um að raf- og tvinnbílum fjölgi vegna markaðseftirspurnar. Út frá þeim forsendum verða niðurgreiðslurnar lækkaðar smám saman og hætt alveg við lok áratugarins.
Xu Yanhua, framkvæmdastjóri hjá samtökum kínverskra bílsmiða (CAAM), segir í samtali við blaðið Economic Information Daily, að rafknúnum farþegabílum muni fjölga til muna og jafngilda fyrir rúmlega 70% af eftirspurn vistvænna bíla í ár.
„Eftirspurn eftir langdrægum hreinum rafbílum mun vaxa enn frekar og hleðslustöðvum mun fjölga í takt við það og styðja við rafbílavæðinguna. Vegna allrar aukningarinnar mun framleiðslukostnaður rafbíla lækka,“ segir Xu í blaðinu.
Seldir voru 507.700 rafbílar og tengiltvinnbílar í Kína í fyrra, sem var 50% aukning frá árinu 2014. Spáð hafði verið allt að 700.000 nýskráningum 2015 en vegna óvissunnar um stuðning til rafbílakaupa rættust þeir spádómar ekki fyllilega.
Hlutdeild rafbíla í kínverska bílamarkaðinum í fyrra var 1,45% og er því spáð að skerfurinn verði 8% árið 2018 og 12% um 2020. agas@mbl.is