Meirihluti telur vegaskemmdir ógna öryggi sínu

Mikill meirihluti þátttakenda hefur oft orðið var við skemmdir á …
Mikill meirihluti þátttakenda hefur oft orðið var við skemmdir á götum og vegum sl. hálft ár og flestir telja þetta ógna öryggi sínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill meirihluti landsmanna verður oft var við skemmdir á götum eða vegum og mikill meirihluti telur sömuleiðis öryggi sínu vera ógnað af ástandi vega hér á landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu um aksturshegðun almennings og sem birt er á vef stofnunarinnar.

79% þeirra sem svöruðu könnunni höfðu oft orðið varir við skemmdir á götum eða vegum sl. 6 mánuði. 16% sögðust stundum hafa orðið varir við skemmdir og 3% sjaldan. Þá urðu eilítið fleiri karlar en konur oft varir við skemmdir á vegum eða 81% á móti 78%.

Þeir sem aka meira sjá oftar skemmdir

Eins voru þeir sem eyddu meira en klukkutíma í umferðinni á dag líklegri til að taka oft eftir skemmdum, eða 85% á móti 74% þeirra sem eyddu minna en 30 mínútum í umferðinni á degi hverjum. Atvinnubílstjórar, eða þeir sem höfðu slík réttindi, voru sömuleiðis líklegri til að svara því játandi að þeir yrðu oft varir við vegaskemmdir eða 84% á móti 78% annarra bílstjóra.

Þegar svarhlutfallið var greint niður eftir landshlutum kom í ljós að 82% aðspurðra á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra urðu oft varir við skemmdir á vegum. 66% aðspurðra á Norðurlandi eystra kváðust taka oft eftir skemmdum og 63% aðspurðra á Austurlandi. 26% í síðastnefndum tveimur landshlutunum kváðust þó taka stundum eftir skemmdum, á móti 14-15% svarenda í hinum landshlutunum.

Áhyggjur karla og kvenna svipaðar

Þegar spurt var hvort fólk teldi vegaskemmdir líklegar til að hafa áhrif á öryggi þeirra í umferðinni var mikill meirihluti þeirra, sem svöruðu könnuninni, þeirrar skoðunar að svo væri. Sögðust 43% telja að skemmdir á götum eða vegum hefðu mjög mikil áhrif á öryggi þeirra í umferðinni og önnur 43% töldu vegaskemmdirnar hafa frekar mikil áhrif. 8% töldu þær hafa hvorki mikil né lítil áhrif og 6% töldu þær hafa frekar lítil áhrif.  

Þegar kynja- og aldursskipting var skoðuð sýndi það sig að svipaður fjöldi karla og kvenna taldi skemmdir á vegum og götum hafa mjög mikil áhrif á öryggi sitt. Fleiri konur en karlar töldu hins vegar áhrifin frekar mikil eða 47% á móti 38%.

Þá var fólk á aldrinum 45-54 ára, eða 52%, fjölmennast í hópi þeirra sem töldu vegaskemmdirnar hafa mjög mikil áhrif á öryggi sitt á móti 35% þeirra sem eru 65 ára eða eldri og 38% þátttakenda á aldrinum  18-24 ára. 44% og 47% aðspurðra í þessum hópum töldu þetta hins vegar hafa frekar mikil áhrif á öryggi sitt á móti 37% fólks í fyrstnefnda hópnum.

Könnunin var gerð dagana 1.-14 nóvember á síðasta ári. Um var að ræða netkönnun send var á 1.486 manns og var svarhlutfall 64,4%.

mbl.is