Apple þróar sjálfkeyrandi bíla

Apple hefur í hyggju af framleiða sjálfkeyrandi bíla.
Apple hefur í hyggju af framleiða sjálfkeyrandi bíla. AFP

Tæknirisinn Apple hefur bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa fengið leyfi til að prófa sig áfram með sjálfkeyrandi bíla í Kaliforníu.

Forsvarsmenn Apple hafa lítið viljað ræða um áform sín í tengslum við bílana. Forstjórinn Tim Cook hefur einungis gefið í skyn að eitthvað slíkt sé í bígerð.

Seint á síðasta ári kom fram í bréfi Apple til bandarískra stjórnvalda að fyrirtækið hefði sett mikinn pening í þróun sjálfkeyrandi bíla. Í bréfinu óskaði fyrirtækið eftir því að stjórnvöld gerðu fyrirtækjum auðveldara fyrir við þróun slíkra bíla.

Flestir stærstu bílaframleiðendurnir eru að þróa sjálfkeyrandi bíla en þeir eru taldir vera framtíð bílaiðnaðarins, ásamt rafbílum.

General Motors greindi frá því fyrr í vikunni að fyrirtækið hefði sett 14 milljónir dollara í þróun sjálfkeyrandi bíla og ráðið 1.100 manns í störf tengd þróuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina