Á bílasýningunni sem nú stendur yfir í Genf kynnir Hyundai nýjan vetnisbíl, sem er gott meira en hugmyndabíll. Hann er sagður langt kominn í prófunum og þróun og á að á götuna snemma á næsta ári, 2018.
Þróunarstjóri kóreska bílsmiðsins, Woong Chul-yang, segir drægi Hyundai FE-vetnisbílsins verða 800 kílómetrar. „Við höfum hannað bílinn svo hann verði langdrægari en aðrir vetnisbílar á markaði, komist meira en 800 kílómetra á fyllingu. Og það mun hann klára þótt hann sé þungur jeppi með stóru farþegarými og stóru farangursrými,“ segir hann.
Hyundai telur drægi af þessu tagi nauðsynlegt vegna takmarkaðra innviða fyrir vetnisbíla í flestum löndum enn sem komið er. Fylgir fregnum að 200 verkfræðingar hafi unnið dag sem nótt í 10 mánuði til að skapa Hyundai FE-bílinn.
Hyundai varð árið 2013 fyrsti bílsmiðurinn til að raðsmíða vetnisbíla. Þar er um að ræða ix35-bílinn, sem einnig gengur undir heitinu Tucson, en hann hefur verið seldur til 17 landa. Í nýja bílnum er orkustöðin 20% léttari og 10% skilvirkari en í ix35. Ætlun Hyundai er að skilvirknin verði allt að 30% meiri.
Enn sem komið er hefur vetnisbíll Hundai aðeins fengið einn keppinaut, Toyota Mirai. Vorið 2018 áformar Mercedes-Benz að hleypa af stokkum vetnisbílnum GLC F-Cell, en hann verður væntanlega frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í haust. Drifrásartækni hans verður að hluta norsk. Loks hefur Honda nýverið hrint úr vör vetnisbílnum Clarity. agas@mbl.is