Fé vantar til hraðari endurnýjunar bíla

Frá afhendingu nýrra lögreglubíla árið 2015. Lögregluembættin úti á landi …
Frá afhendingu nýrra lögreglubíla árið 2015. Lögregluembættin úti á landi fá níu nýja lögreglubíla á þessu ári. mbl.is/Júlíus

Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra er að leggja lokahönd á örútboð vegna kaupa á sérútbúnum og sértilbúnum lögreglubílum. Ætlunin er að kaupa níu sérútbúna lögreglubíla á þessu ári fyrir lögregluembættin á landsbyggðinni. Stefna ríkislögreglustjóra er að kaupa sem mest sértilbúna bíla, að sögn Agnars Hannessonar, rekstrar- og þjónustustjóra hjá ríkislögreglustjóra.

Hjá bílamiðstöð ríkislögreglustjóra eru nú um 140 ökutæki. Bílamiðstöðin sér um rekstur ökutækja lögreglunnar og búnaðarins sem í þeim er. Í raun er um að ræða samrekstur með lögreglustjóraembættunum, að sögn Agnars. Ríkislögreglustjóri innheimtir tvíþætt gjald vegna ökutækjanna. Fastagjald af hverju ökutæki sem stendur undir endurnýjun og kílómetragjald sem stendur undir rekstri, þ.e. eldsneyti, viðhaldi, hjólbörðum, tjónum o.fl.

„Ljóst er að við þyrftum mun meira fjármagn til að geta haldið úti hraðari endurnýjun,“ sagði Agnar í skriflegu svari. „Til fróðleiks má geta að margt getur skekkt reksturinn. Ábyrgðartrygging ökutækja okkar hefur t.d. hækkað úr 21 milljón króna í tæplega 50 milljónir á þessu ári vegna tjóna á ökutækjunum. Í fjármálahruninu var það meðvituð ákvörðun okkar að reyna að viðhalda meðalaldri ökutækjanna enda nýkaup í minna mæli þá. Nú er stefnan að endurnýja eins hratt og mögulegt er og höfum við um 190 m.kr. á ári í það.“ Þess ber að geta að hluti af þeirri upphæð fer í að endurnýja gamlan búnað í ökutækjunum. Þar má nefna endurnýjun á fjarskiptabúnaði, radar- og upptökubúnaði, vopnakistum ásamt forgangsbúnaði.

Öll ný ökutæki lögreglunnar eru tölvuvædd. Þannig geta lögreglumenn unnið í öllum kerfum lögreglunnar úti á vettvangi. Lögreglustjórar óska eftir þessum búnaði. Hver búnaðarpakki kostar 4-5 milljónir króna.

Ríkislögreglustjóri keypti 13 ný ökutæki 2016. Þá fengu lögreglustjóraembættin á Suðurlandi, Suðurnesjum, Norðurlandi vestra og eystra ásamt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ný ökutæki.

Fjórir sérútbúnir sérsveitarbílar hafa verið keyptir.
Fjórir sérútbúnir sérsveitarbílar hafa verið keyptir. mbl.is/Árni Sæberg

Nýir bílar en skortir föt

Lögreglan á Austurlandi er með átta lögreglubíla. Mest ekna bílnum verður skipt út fyrir nýjan síðar á árinu. Jónas Wilhelmsson Jensen yfirlögregluþjónn sagði að bílunum væri vel við haldið. Embættið er með lögreglustöðvar á Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi. Stefnt er að því að opna lögreglustöð á Seyðisfirði. Þau áform hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð, að sögn Jónasar.

Ekki eru til ný einkennisföt fyrir sumarstarfsmenn lögreglunnar á Austurlandi og lítur út fyrir að finna þurfi notuð föt á sumarfólkið.

Lögreglan á Vesturlandi á von á nýjum bíl á þessu ári. Hún bað um þrjá bíla í fyrra en fékk engan þá, að sögn Jóns S. Ólasonar yfirlögregluþjóns. Lögreglustöðvar eru í Snæfellsbæ, Grundarfirði, Stykkishólmi, Akranesi, Búðardal og Borgarnesi. Embættið er nú með átta lögreglubíla, flesta talsvert mikið ekna. Búið er að aka mest ekna bílnum tæplega 300.000 km, fjórir eru komnir á þriðja hundrað þúsund km og tveir eru á öðru hundraðinu. „Þetta eru fínir bílar,“ sagði Jón.

Líkt og víðar munu sumarstarfsmenn lögreglunnar á Vesturlandi fá notuð einkennisföt. Þarf jafnvel að fá hluta þeirra lánaðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina