Samgöngustofa hefur ekki undan að forskrá

Athafnasvæði Eimskips er troðfullt af innfluttum ökutækjum, bæði nýjum og …
Athafnasvæði Eimskips er troðfullt af innfluttum ökutækjum, bæði nýjum og notuðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Megn óánægja er meðal innflytjenda notaðra og nýrra bíla, bæði fyrirtækja og einstaklinga, með miklar tafir í forskráningum hjá Samgöngustofu. Eru dæmi um allt að fjögurra vikna bið eftir slíkum pappírum, til að geta tollafgreitt bílana á hafnarbakka skipafélaganna.

Samgöngustofa ber fyrir sig fjárskort, hún hafi ekki fjárheimildir til að bæta við mannafla og hafi orðið að færa til störf innan stofnunarinnar til að ráða betur við aukinn innflutning á bílum.

Á sama tíma bíða þúsundir bíla við hafnirnar og skipafélögin eru komin í vandræði með pláss undir flotann. Einnig leggst á kostnaður fyrir bíleigendur sem þurfa að greiða geymslugjöld til skipafélaganna. Eftir fjóra daga á hafnarbakkanum fer Eimskip að rukka 700 krónur á dag fyrir hvern bíl og gjaldið er svipað hjá Samskipum.

„Ótækt ástand“

„Ástandið er algjörlega ótækt. Þetta er búið að vera vandamál í meira en ár. Við höfum fundað með Samgöngustofu og samgönguráðherra, sem tók okkur mjög vel, en það hefur í raun engu skilað. Ráðherra hefur skipað einhverja nefnd en við sjáum ekki að það breyti neinu í bráð,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambands Íslands, um stöðuna. Sömu sögu höfðu Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri söluviðs BL, og Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldurs-Bílaleigu Akureyrar, að segja. „Okkar tjón er kannnski ekki stóra málið heldur sú staðreynd að Samgöngustofa er ekki að veita þá þjónustu sem henni ber að veita,“ segir Skúli.

Undir þetta tekur Steingrímur. Hann segir að ef ástandið haldi svona áfram þá muni það koma sér mjög illa fyrir bílaleigurnar.

„Vonandi er eitthvað verið að vinna í þessu. Við ákváðum að bregðast við með því hreinlega að panta bílana til landsins fyrr en við þurftum í rauninni að gera. Það þýðir bara aukinn fjármagnskostnað fyrir okkur,“ segir Steingrímur.

Morgunblaðið óskaði eftir skýringum frá Samgöngustofu á þessum töfum. Í skriflegu svari frá Þórhildi Elínardóttur samskiptastjóra segir að uppsveifla í þjóðfélaginu og aukinn straumur ferðafólks hafi m.a. skilað sér í verulegri aukningu í allri ökutækjaumsýslu, bæði forskráningum og nýskráningum. Frá árinu 2013 hafi vöxturinn verið 33-49% á ári og spár fyrir þetta og næsta ár geri ráð fyrir 30% aukningu á ári. Bendir Þórhildur á að 30. apríl sl. hafi Samgöngustofa verið búin að forskrá 12.237 ökutæki frá áramótum en á sama tíma í fyrra hafi fjöldinn verið 9.375 ökutæki.

„Samgöngustofa hefur hingað til ekki fengið heimild fjárveitingavaldsins til að nýta auknar tekjur ríkisins af innflutningi til að mæta þessari auknu eftirspurn eftir þjónustu. Hinn fjárhagslegi stakkur hefur einfaldlega ekki verið nægilega sveigjanlegur til að rúma þennan mikla vöxt,“ segir í svarinu.

Þrír starfsmenn í fullu starfi vinna við forskráningu ökutækja. Þrír aðrir sérhæfðir starfsmenn vinna við flóknari forskráningu. Að auki eru 12-15 starfsmenn á þjónustusviði í daglegri móttöku gagna og ýmsum verkefnum tengdum forskráningu, s.s. símsvörun, skönnun og tengingu gagna, frágangi og pökkun, umsýslu númerplatna o.fl.

Ferill forskráningar

Við forskráningu ökutækja fer Samgöngustofa yfir gögn um hvert ökutæki, s.s. erlent skráningarskírteini, vottorð frá viðurkenndri tækniþjónustu, farmbréf og fleira. Gögnin eru skráð í ökutækjaskrá og ökutækjum gefið fastanúmer. Samgöngustofa segir misjafnt eftir ökutækjum hve flókin yfirferð og sannreynd á gögnunum sé. Þannig sé yfirferð svonefndra gerðarviðurkenndra ökutækja fljótlegust, oftast bílar fyrir umboðin, en gögn þeirra hafa þegar verið skráð í miðlægan gagnagrunn sem Norðurlöndin hafa sameinast um. „Gerðarviðurkenning er aðferð aðildarríkja ESB og EES/EFTA til að votta að gerð ökutækis uppfylli kröfur sem gerðar eru til þeirra,“ segir í svari Samgöngustofu. Vinnsla við þessa skráningu tekur yfirleitt skemmri tíma en þegar stakir bílar eru fluttir inn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina