Aðstandendur breska bílaþáttarins Top Gear hafa verið sviptir sérleyfi norsku lögreglunnar til að aka á allt að 140 kílómetra hraða á klukkustund á völdum vegaköflum í Mæri og Raumsdal við vesturströnd Noregs eftir að mælingar sýndu bifreiðar á vegum þáttarins á allt að 244 km hraða á miðvikudaginn.
Stjórnendur þáttarins höfðu falast eftir og fengið sérstakt leyfi frá lögreglunni til að aka bifreiðum, sem prófaðar skyldu í þáttunum, langt yfir lögleyfðum hámarkshraða á Atlanterhavsveien á eyjunni Eldhusøya og í jarðgöngum sem hluti vegarins liggur um. Hljóðaði samkomulagið upp á hámarkshraðann 140 km/klst. á umsömdum tímabilum sem hvert skyldi vera að hámarki tólf mínútur.
Lögreglan vissi því ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar skynjarar við vegbrúnina, sem notaðir eru við umferðareftirlit með því að mæla þann tíma sem sama farartæki notar til að komast á milli tveggja punkta, sýndu ítrekað ökutæki sem ekið var með að minnsta kosti 200 km hraða á klukkustund en norska sjónvarpsstöðin TV2 heldur því fram að eitt ökutækið hafi mælst á 244 km hraða.
Leyfið til að aka á 140 km hraða var eðlilega afturkallað með hraði og hefur lögreglan í Mæri og Raumsdal nú hafið rannsókn sem miðar að því að komast að því hver eða hverjir óku bifreiðunum á þriðja hundraðinu. Það eina sem beinlínis hefur fengist staðfest er að þáttastjórnendurnir Matt LeBlanc og Chris Harris voru hvorugur á staðnum nefnt tímabil og teljast hafa örugga fjarvistarsönnun.
Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir breska ríkisútvarpið BBC sem haft hefur veg og vanda af Top Gear-þáttunum allar götur síðan 2002. Philip Fleming, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, játar í samtali við TV2 að borist hafi fyrirspurn um málið frá norsku lögreglunni og að sjálfsögðu muni ríkisútvarpið leggja sig í framkróka við að vera samvinnuþýtt við rannsóknina og gera sitt til að varpa ljósi á hvaða ökuþórar túlkuðu samkomulagið svo frjálslega.