Langtímaáætlun er frumskilyrði

Rafhleðslustöðvum fjölgar jafnt og þétt.
Rafhleðslustöðvum fjölgar jafnt og þétt. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Horfa þyrfti til langtímastefnumótunar varðandi orkuskipti í samgöngum, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvort sá möguleiki sé fyrir hendi hér á landi að segja skilið við notkun jarðefnaeldsneytis í bifreiðum. Yfirvöld í Bretlandi og Frakklandi hafa á síðustu vikum tilkynnt að þau muni banna sölu á bensín- og dísilbílum frá og með árinu 2040.

„Þróunin er jákvæð og ör í bifreiðageiranum um þessar mundir. Við erum líka að horfa á miklar breytingar í samgöngum og samgöngutækni,“ segir Runólfur. Hann segir að í augnablikinu þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af notkun bensín- og dísilbíla hér á landi. Hann á þó von á að rafbílum muni fjölga verulega hér á næstu árum.

Runólfur bendir á að sniðugt væri að fylgja skrefum Norðmanna í stefnumálum til rafbílavæðingar. „Þar hafa stjórnvöld markað þessa stefnu vel og reynt að sjá málið frá öllum hliðum og það er nokkuð sem væri mjög jákvætt að sjá innleitt hér.“

Tækifærin fyrir hendi

Spurður hvort hár aldur bílaflota Íslendinga geti leikið hlutverk þegar kemur að því að skipta yfir í græna orku segir Runólfur tækifærin vissulega fyrir hendi. Kaup á raf- og tvinnbílum hafi aukist á síðustu misserum. Grundvallaratriði sé þó að stjórnvöld marki skýra stefnu í málum sem þessum, að sögn Runólfs. „Við þurfum að hugsa aðeins lengra en til næsta árs. Það er nokkuð sem við verðum að læra af þjóðunum í kringum okkur.“

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir allar aðstæður ágætar hérlendis hvað framleiðslu rafmagns snertir fyrir verkefni sem þetta. Hins vegar þurfi að gera stórátak í dreifingu á því, þ.e. uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla um land allt.

Özur tekur í sama streng og Runólfur um að stjórnvöld þurfi að marka stefnu til langs tíma sé viljinn fyrir hendi. „Það er ekki hægt að taka skyndiákvarðarnir, líkt og þegar nýverið heyrðust raddir þess efnis að dísilbílar menguðu meira og þá ætti helst á morgun bara að hækka álögur á dísilbíla,“ segir Özur. Hann bætir við að á sínum tíma hafi það verið stjórnvöld sem hvöttu almenning til aukinnar notkunar á dísilbílum og að um helmingur bílaflota Íslendinga sé dísilbílar.

Spurður hvort Bílgreinasambandið myndi glatt taka skref í þá átt að skipta yfir í rafbíla kveður Özur já við. „Þ.e.a.s. ef innviðir hérlendis bjóða upp á það og ef það verður ofan á,“ segir hann. Þá nefnir Özur að bæði Hyundai og Toyota líti til framleiðslu á bílum sem séu alfarið knúnir vetni til þess að keppa við rafmagnsbíla.

Réttast að fara vel yfir kosti

„Það þarf aðeins að anda með nefinu í þessum málum. Gríðarleg þróun er í bílaheiminum. Aldrei hefur jafnmikið gerst á svo skömmum tíma og að auki er séð fram á miklar breytingar í samgöngum. Að rjúka á eitthvað eitt er mjög varhugavert að mínu mati,“ segir Özur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina