Herða eftirlit með farsímanotkun við akstur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Samgöngustofu herðir eftirlit með …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Samgöngustofu herðir eftirlit með farsímanotkun við akstur á næstunni. Sektir gætu numið allt að 100 þúsundum króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Samgöngustofu hafa verið og munu gefa umferðarlagabrotum er snúa að farsímanotkun undir stýri aukið vægi. Sex ökumenn voru kærðir fyrir hádegi í dag vegna notkunar farsíma við akstur.

Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að skilaboð hafi verið gefin til stöðvarstjóra og annarra lögreglumanna um að beina athygli sérstaklega að þessum þætti umferðalagabrota á næstunni.

Í dagbók lögreglu kemur fram að sex ökumenn voru kærðir fyrir hádegi í dag vegna notkunar farsíma við akstur. 

Ómar segir að í náinni framtíð munu sektir vegna umferðarlagabrota margfaldast umfram það sem verið hefur. „Þá og þegar ökumaður verður t.d. myndaður fyrir of hraðan akstur talandi í farsíma við akstur verður þeirri sekt bætt ofan á hraðasektina,“ segir hann. Gæti heildarsektin auðveldlega numið a.m.k. eitt hundrað þúsund krónum.

Ökumenn hugsi ekki bara um sjálfan sig 

Ómar bendir á tvennt sem ökumenn eiga að hafa í huga. „Í fyrsta lagi krefst akstur ökutækis fullrar og óskiptar athygli ökumanns. Hunsi hann þá staðreynd er hann að stefna lífi sínu og annarra í hættu - með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í öðru lagi er engin hringing eða skilaboð í farsíma svo mikilvæg að hvorutveggja geti ekki beðið uns komið er á áfangastað,“ eða að minnsta kosti beygt út af akbraut til þess að huga að þeim.

Lögreglan og Samgöngustofa vilja vekja athygli á því hversu mikilvægt er að hver og einn ökumaður hugsi ekki bara um um sjálfan sig við slíkar aðstæður „heldur og um okkur öll hin, sem erum samferða honum í umferðinni," segir Ómar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina