Ef drög að breytingum á reglugerð um ökuskírteini verða að veruleika verður heimilt að taka bílpróf á sjálfskipta bifreið og verða ökuréttindin þá takmörkuð við slíkan bíl. Samkvæmt núgildandi reglugerð er aðeins heimilt af heilbrigðisástæðum að taka próf á sjálfskipta bifreið og þá að mati læknis.
Í núgildandi reglugerð er gerð krafa um að unnt sé að taka úr notkun hjálparbúnað, t.d. bakkmyndavélar og veglínuskynjara, þegar kennsla og próf fer fram. Í ljósi þess að hjálparbúnaður í ökutækjum verður stöðugt algengari og fjölbreyttari er talið óraunhæft og óeðlilegt að gera kröfu um slíkt. Er af þeim sökum lagt til að þegar ökutæki sem notað er við kennslu eða próf er búið sérstökum hjálparbúnaði skuli ökunemi geta útskýrt virkni slíks búnaðar.
Þá eru lagðar til breytingar um að skýra ákvæði er varða námskeið vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra.
Drög að breytingum á reglugerð um ökuskírteini eru nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Frestur til að senda umsagnir um drögin er til 11. september næstkomandi.