Risinn sem býr á jöklinum

Prófanir standa núna yfir á jöklarútunni Sleipni. Bíllinn er sennilega sá stærsti sinnar gerðar í öllum heiminum og fer létt með að fara yfir jökulsprungurnar á Langjökli.

mbl.is fékk að kíkja á prófanir á jöklinum í síðustu viku en nánar er fjallað um Sleipni í Bílablaði sem fylgdi Morgunblaðinu í gær.

Ástvaldur Óskarsson, kallaður Valdi Víbon, var á ferðalagi í vesturhluta Kanada þegar hann sá jöklarútu í fyrsta skipti með eigin augum fyrir um 20 árum síðan. „Það er löng hefð fyrir því að aka ferðamönnum á þannig farartækjum á jökulsvæði nálægt Banff. En ef að er gáð er í raun ekki ekið upp á jökulinn, heldur keyrt á skriðjökulstungu, sem búið er að hefla til og gera að samfelldri íshellu. Það reynir því aldrei neitt á flotið í bílunum,“ segir hann.

Valdi smíðaði nokkra jöklabíla til viðbótar en tók sér svo hlé frá tryllitækjasmíðinni þar til snemma á síðasta ári að risarútan Sleipnir tók að fæðast. Eftir eins og hálfs árs hönnunar- og smíðavinnu, og um það bil 70 milljóna króna fjárfestingu, er Sleipnir tilbúinn og standa núna yfir prófanir á þessu mikla ferlíki á Langjökli.

Ekki er hægt að undirstrika það nægilega vel hvað Sleipnir er risastór rúta. Dekkin eru hærri en meðalstór karlmaður - 78 tommur, eða 2 metrar - og ökutækið allt svo umfangsmikið að dæmigert einbýlishús virðist smávaxið í samanburði. Er mjög líklegt að Sleipnir sé stærsta jöklarúta í heimi, ef ekki stærsta hópferðabifreið sem smíðuð hefur verið.

Óvænt uppákoma varð á jöklinum þegar mbl.is fékk að kíkja á Sleipni. Stór 20 tonna trukkur sat pikkfastur í sprungu og það varð úr að Valdi dró trukkinn upp úr sprungunni algerlega áreynslulaust. 

mbl.is