Flökurt vegna forljóts bíls

Breyttir bílar fara misjafnlega í menn. Oftast vel en stundum illa. Það  á vissulega við um
stakt eintak af Mercedesbíl sem fengið hefur furðulega yfirbyggingu.

Bíllinn kom upphaflega á götuna sem nýr árið 2002 og þá sem Mercedes-Benz CLK. En hann tók algjörum stakkaskiptum eftir að hann komst í hendur bílabreytingamanns.

Núverandi eigandi bílsins auglýsir hann til sölu á netinu og setur 4.999 pund sem lágmarksboð, en það svarar til um 720 þúsund króna.
 
Farartækið, sem mörgum netverjanum þykir forljótt, er í góðu ásigkomulagi og löglegt til aksturs í venjulegri umferð. Einum þeirra er svo misboðið að hann hefur sett af stað söfnunarherferð til að kaupa bílinn og granda honum. Safnist honum nægt fé segir hann að bíllinn yrði brotinn og hakkaður í mél svo aldrei takist að endursmíða hann. Segist hann munu hnykkja á því með því að brenna skráningarskírteini bílsins. Maðurinn segist nú þegar hafa verið boðin aðstoð við að brjóta bílinn í tætlur, m.a. með skriðdreka.

Meðfylgjandi myndir sýna þennan umdeilda bíl sem flestum þykir forljótur og aðrir segjast verða flökurt við að horfa á hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina