Á fjórum árum hefur bílaumboðið Hekla misst niður meira en 9 prósentustig í markaðshlutdeild í seldum fólksbílum á landinu. Á sama tíma hafa helstu keppinautarnir bætt við sig.
Greint var frá því Morgunblaðinu í gær að árið 2017 hefði verið stærsta árið í bílasölu frá upphafi en 21.287 fólksbílar voru seldir á árinu.
Bílgreinasambandið heldur utan um tölur yfir sölu bíla eftir fyrirtækjum, bíltegundum og öðrum flokkum. Tölurnar sýna að Hekla var með 24,88% hlutdeild árið 2013 sem síðan varð 19,3% árið 2014 og loks 15,7% á síðasta ári.
Á sama tímabili hefur hlutdeild BL farið úr 17,3% í 27,1%. Toyoyta jók einnig við sig úr 15,8% í 17,5%, sem og Askja og Brimborg. Hekla hefur þannig oltið úr fyrsta sæti niður í þriðja sæti á fáeinum árum.
Þróun markaðshlutdeildar endurspeglaðist í hagnaði bílaumboðanna á árinu 2016. Þá hagnaðist Hekla um 280 milljónir, samanborið við 619 milljóna króna hagnað árið áður. Hins vegar jókst hagnaður BL um 55% en hagnaðurinn nam 1,5 milljörðum árið 2016 samanborið við 950 milljónir árið 2015.
Toyota var langvinsælasta vörumerkið á síðasta ári en í heildina seldust 3.639 Toyota-bílar sem mynduðu 17,1% markaðshlutdeild. Næst á eftir kom Kia með 2.251 selda bíla og 10,6% hlutdeild og síðan Hyundai með 1.765 selda bíla og 8,3% hlutdeild.