Rafbílar og tvinnbílar mynduðu meira en helming af seldum bílum í Noregi á síðasta ári.
Rafbílar, ásamt stöku vetnisbílum, mynduðu 20,9% af seldum bílum árið 2017 og tvinnbílar mynduðu 31,35%. Það er töluverð aukning frá fyrra ári þegar hlutföllin voru 15,7% og 24,5% í sömu röð.
Noregur, sem er stærsti olíuframleiðandi Evrópu, hefur sett háleit markmið um að enginn eldsneytisknúinn bíll verði seldur eftir 2025. Stjórnvöld þar í landi hafa beitt ívilnunum og kvöðum til að sjá til þess að rafbílar séu samkeppnishæfir við þá eldsneytisknúnu.
Til að mynda njóta eigendur rafbíla margra fríðinda eins og niðurfellingar vegatolla og stöðumælagjalda, og heimildar til að keyra á akreinum strætisvagna.