Þýski bifreiðaframleiðandinn Volkswagen hefur gengið til liðs við sprotafyrirtækið Aurora um rannsóknir og þróun á sjálfkeyrandi bílum.
Forstjóri Aurora, sem er með höfuðstöðvar í Sílikondalnum í Kaliforníu, er Chris Urmson, frumkvöðull á sviði sjálfkeyrandi bíla, en hann leiddi áður þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Google.
Samkvæmt frétt Financial Times hófst samstarf fyrirtækjanna fyrir sex mánuðum og felst það í að innleiða vélbúnað, hugbúnað og skynjara sem starfsmenn Aurora hafa þróað inn í sjálfkeyrandi bílastefnu Volkswagen.
Fyrsta frumgerð sjálfakandi bíls Volkswagen, Sedric, var sýndur fyrsta sinni opinberlega, í Genf á síðasta ári. Á næsta stigi samstarfsins verður unnið að því að þróa bílaflota sjálfkeyrandi bíla í takt við eftirspurn.
Aurora hefur einnig tilkynnt um sams konar samstarf við Hyundai. Suður-kóreski bílaframleiðandinn hyggst kynna nýjan vetnisbíl í næstu viku á sérstakri sýningu í Las Vegas og talið er að bíllinn muni búa yfir eiginleikum sem henta vel fyrir sjálfkeyrandi bíla.
Samkvæmt samningi Aurora og Hyundai er stefnt að því að koma sjálfkeyrandi bílum á markað innan þriggja ára, eða árið 2021. Hyundai hefur verið að dragast aftur úr í kapphlaupinu um sjálfkeyrandi bíla, en nú vonast bílaframleiðandinn að samstarfið við Aurora muni koma þeim í leiðandi stöðu.
„Við vitum að samgöngur framtíðarinnar verða sjálfstýrandi og tækni sem sjálfkeyrandi bílar byggjast á verður að vera sönnuð í raunheimum til að flýta fyrir innleiðingu með öruggum en sveigjanlegum hætti,“ segir Tang Woong-chul, aðstoðarforstjóri Hyundai.
Volkswagen hyggst innleiða tugi sjálfkeyrandi bíla í tilraunaskyni á árinu í samstarfi við Aurora. Vonast bílaframleiðandinn að tilraunirnar skipti þúsundum árið 2020 áður en fyrsta sjálfkeyrandi leigubílaflotanum verður komið á fót í nokkrum borgum árið 2021. Alls mun fyrirtækið eyða 35 milljörðum evra í þróun sjálfkeyrandi bíla á næstu fimm árum.