Skapa hættu og hafa lítinn tilgang

„Hraðahindranir sem settar eru þannig niður að unnt sé að sneiða hjá þeim hafa lítinn tilgang og skapa jafnvel hættu.“ Svo segir í svari Samgöngustofu við fyrirspurn mbl.is um hraðahindranapúða. Þá eru vísbendingar um að þeir valdi skemmdum á fjöðrunarbúnaði bíla. 

Í síðustu viku birti mbl.is myndskeið þar sem fylgst var með bílum sem sveigja hjá hraðahindrunum, svokölluðum púðum, til að hlífa ökutækjum sínum við því að fara yfir þær. Þessi gerð hraðahindrana er hönnuð hér á landi og er séríslensk lausn. Markmiðið með þeim er að hlífa strætisvögnum við því að þurfa að keyra yfir þær með tilheyrandi álagi fyrir fjöðrunarbúnað vagnanna. 

Raunar er ekki langt síðan fresta þurfti afhendingu á strætisvögnum til Strætó þar sem styrkja þurfti hjóla- og fjöðrunarbúnað vagnanna sérstaklega til að þeir gætu tekið við höggunum frá hraðahindrunum í borginni.  

Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri EuroRap og sérfræðingur í umferðaröryggi, er mjög gagnrýninn á þessa tegund hraðahindrana og segir þær oft hægja of mikið á umferð. Þær séu settar í götu með 50 km hámarkshraða en til að fara yfir þær án þess að valda of miklu álagi á fjöðrunarbúnað bílsins þurfi að hægja ferðina niður í 15-20 km/klst. Hann segir þær langmest notaðar í Reykjavík.

Á myndunum í meðfylgjandi myndskeiði er augljóst að bílstjórar kjósa að keyra ekki yfir hindranirnar og reyna að sveigja á milli þeirra til að sleppa við að hægja á bílum sínum og hlífa þeim við högginu. 

Vísbendingar um að púðar valdi skemmdum

Í kjölfar fréttarinnar bárust mbl.is ábendingar um að það væri vel þekkt að þessi tegund hraðahindrana skemmdi bíla. Í svari Samgöngustofu við fyrirspurn um þetta atriði segir að slit á hjóla og fjöðrunarbúnaði hafi aukist frá árinu 2010 samkvæmt upplýsingum sem er safnað frá skoðunarstöðvum. Enn fremur segir að hönnun púðanna geti verið einn áhrifaþátturinn í því samhengi þar sem þeir „gefi ekki jafna fjöðrun í ökutækjum“.

Aðrar skýringar sem eru nefndar er að „fólk sé farið að aka meira en áður eða að vegir séu mögulega ekki í nægilega góðu ástandi“. Erfitt sé að alhæfa um ástæðurnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka