Bandarískir bílar í mótbyr

Nýr Chevrolet Silverado frumsýndur í á bílasýningunni í Detroit í …
Nýr Chevrolet Silverado frumsýndur í á bílasýningunni í Detroit í Michiganríki í Bandaríkjunum í janúar. AFP

Bandarískar bílasamsteypur  töpuðu hlutdeild á heimsmarkaði á nýliðnu ári, 2017. Japanskir bílsmiðir unnu aftur á móti á. Það staðfesta endanlegar sölutölur ársins.

Ljóst þótti um miðjan janúar að Volkswagen samsteypan hefði selt fleiri bíla en nokkur önnur samsteypa 2017.  Hinar endanlegar sölutölur staðfesta það.

VW samsteypan seldi alls 10,37 milljónir bíla af öllum stærðum og gerðum sem er 3,5% aukning frá 2016. Í öðru sæti varð Toyota með 10,17 milljónir bíla (+1,6%) og í því þriðja Renault-Nissan með 10,07 milljónir (+6,0%).

General Motors féllu um eitt sæti á listanum, m.a. vegna sölunnar á Opel til PSA Peugeot-Citroen. Seldi GM 6.86 milljónir bíla (+0,4%).

Hyundai-samstypan hækkaði sig  um sæti í það fjórða en hún seldi alls 7,2 milljónir bíla, sem er 8,7% aukning frá 2016.    

Í sjötta sæti varð Ford með 6,2 milljónir bíla sem er samdráttur um 1,6%. Í sjöunda sæti varð Honda með 5,3 milljónir bíla sem er 7,5% aukning.

Í áttunda sæti varð Fiat-Chrysler samsteypan með 4,79 milljónir eintök (+0,3%) og upp um eitt sæti í það níunda færðist PSA með 4,1 milljón bíla, sem er 3,9% færri bílar en 2016.

Suzuki hreppti svo tíunda sætið með 3,1 milljónum seldra bíla. Í ellefta sæti varð Mercedes-Daimler samsteypan með 2,6 millljónir bíla og í því tólfta BMW með 2,4 milljónir bíla.

Árið byrjar ekki sérlega vel í Bandaríkjunum en þar hefur bílasala dregist talsvert saman í janúar og febrúar.  Samdrátturinn var 6,9% hjá GM og Ford og eitt prósent hjá Fiat Chrysler. Í febrúar í fyrra naut GM metsölu á jepplingum, stórum jeppum og pallbílum.

mbl.is

Bloggað um fréttina