Bandaríska umferðarstofan, US National Highway Traffic Safety Administration, hefur nú hafið rannsókn á röð banvænna bílslysa þar sem loftpúðar í bílum frá Hyundai og Kia hafa ekki blásið út eins og skyldi.
Í frétt Reuters um málið segir að stofnuninni sé kunnugt um sex árekstra bíla frá þessum framleiðendum þar sem loftpúðinn hafi ekki blásið út við árekstur framan á bílinn. Fjórir létust í árekstrunum og sex til viðbótar særðust.
Vera kunni að stýrikerfi loftpúðans komi í veg fyrir að hann blási upp við árekstur að því er segir í yfirlýsingu.
Hyundai skilaði inn skýrslu um málið í lok febrúar sem leiddi til þess að bílar voru innkallaðir í umboð, en bílaframleiðandinn segist þó enn ekki vera kominn með lausn á vandanum.
Innköllun bifreiða tók til 155.000 Hyundai Sonata bíla sem framleiddir voru á tímabilinu frá desember 2009 til september 2010 í verksmiðju Hyundai í Alabamaríki.
Forsvarsmenn Kia, sem er að hluta í eigu Hyundai, hafa hins vegar ekki tjáð sig um málið.
Talið er að vandinn geti tekið til allt að 425.000 bíla.