Fjárfestar bíða ólmir eftir að sjá nýjustu afhendingartölur bandaríska rafbílaframleiðandans Tesla en margir spá því að fyrirtækið glími enn við mikla erfiðleika við framleiðslu nýja Model X bílsins og að afhendingar nýrra bíla hafi ekki verið í samræmi við áætlanir.
Hlutabréfaverð Tesla hefur verið á hraðri niðurleið og lækkaði um 22% í mars en leita þarf sjö ár aftur í tímann til að finna jafn slæman mánuð hjá fyrirtækinu. Lækkunin hélt áfram við opnun markaða vestanhafs á mánudag, og þegar mest lét rýrnuðu hlutabréf Tesla um rösklega 7% í gærmorgun.
Í umfjöllun um mál Tesla í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að meðal þeirra sem hafa gagnrýnt rekstur stjörnufrumkvöðulsins Elon Musk er fjárfestirinn John Thompson hjá Vilas Capital Management. Hann hefur tekið skortstöðu í Tesla um nokkurt skeið og segir efnahagsreikning fyrirtækisins nú svo slæman að Tesla verði farið á hausinn innan fjögurra mánaða nema Musk „dragi kanínu upp úr hattinum sínum“.