Innflutningur á tengiltvinnbílum á fyrstu þremur mánuðum ársins nálgast heildarinnflutning slíkra bíla allt árið 2016. Í janúar, febrúar og mars voru fluttir inn 718 tengiltvinnbílar, en árið 2016 voru 782 slíkir bílar fluttir inn.
Á síðasta ári tók innflutningur tengiltvinnbíla kipp, en þá voru fluttir inn 2.136 bílar. Á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs voru fluttir inn 494 tengiltvinnbílar.
Samdráttur varð í innflutningi hreinna rafbíla á fyrstu þremur mánuðum ársins, en 101 bíll af slíkri gerð var fluttur inn. Á sama tíma í fyrra voru fluttir inn 190 hreinir rafbílar. Innflutningur á hreinum rafbílum tvöfaldaðist rúmlega á síðasta ári þegar fluttir voru inn 854 bílar.
Í umfjöllun um þennan innflutning vistvænna bíla í Morgunblaðinu í dag segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, að tengiltvinnbílar séu ákveðið millistig í rafbílaþróuninni og að net hleðslustöðva sé enn í uppbyggingu.