„Ég er að selja radarvara sem kosta 74.900 krónur og fékk 21 stykki inn í búð fyrir þremur vikum – þeir seldust allir á einum degi. Fyrir tveimur vikum fékk ég 30 stykki og þeir eru seldir. Þetta er eins og berjasala á haustin.“
Þetta segir Jónína Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Nesradíós, í Morgunblaðinu í dag en eftirspurn eftir radarvörum í bíla hefur stóraukist eftir að hraðasektir hækkuðu 1. maí síðastliðinn.
Núna eru ökumenn sektaðir um 40 þúsund krónur ef þeir eru gómaðir við akstur án handfrjáls búnaðar. Jónína segir hækkun sekta hafa ýtt undir sölu á bæði radarvörum og handfrjálsum búnaði.
Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir suma radarvara virka við ákveðnar aðstæður, á meðan önnur tæki virki illa eða ekkert. Þá segir hann lögregluna geta mælt hraða ökumanna úr 4-5 km fjarlægð.