Fólk hafi frelsi til að eiga ekki bíl

Oddvitar meirihlutaflokkanna kynntu samstarfið í morgun. Líf Magneudóttir er hér …
Oddvitar meirihlutaflokkanna kynntu samstarfið í morgun. Líf Magneudóttir er hér lengst til hægri. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr meirihluti í Reykjavík mun skoða sérstaklega hvernig hægt er að byggja upp ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk miðsvæðis í borginni og hefur það að markmiði að draga úr fjölda þeirra bílferða sem farnar eru innan borgarmarkanna á degi hverjum. Þetta segir Líf Magneudóttir, oddviti og borgarfulltrúi Vinstri grænna, í samtali við blaðamann mbl.is.

„Við ætlum að halda uppbyggingu í Reykjavík áfram og spýta í lófana og halda áfram í samvinnu við verkalýðsfélögin og líka tala við ríkið. Við þurfum að huga að því að byggja hérna ódýrt húsnæði fyrir ungt fólki, sérstaklega miðsvæðis,“ segir Líf um áform meirihlutans í húsnæðisuppbyggingu í borginni.

Er blaðamaður spyr hvort hægt sé að byggja upp ódýrt húsnæði miðsvæðis í borginni svarar Líf því játandi.

„Það er það sem við erum að fara að skoða, í tengslum við borgarlínuna eins og stendur í sáttmálanum. Það er verkefnið fram undan og líka það að ungt fólk þurfi ekki að eiga bíl og geti notað peningana sína í eitthvað annað,“ segir Líf.

Ánægð með áherslu á félagslegar íbúðir

Hún segir að Vinstri græn hafi lagt áherslu á það að fjölga félagslegu leiguhúsnæði og á orðum hennar má skilja að það hafi verið fyrir atbeina fulltrúa flokksins að í meirihlutasáttmálanum segir að félagslegum íbúðum í eigu Reykjavíkurborgar verði fjölgað um 500 á kjörtímabilinu.

Aðspurð segir Líf að sú fjölgun geti átt sér stað með ýmsum hætti. „Það getur verið hvers kyns, við getum keypt okkur inn í nýbyggingar, við getum farið að byggja en við getum líka keypt húsnæði.“

Líf bætir því að Reykjavíkurborg hafi fyrst byrjað að ná árangri í uppbyggingu félagslegs húsnæðis með tilkomu Vinstri grænna í síðasta meirihluta, en þar áður, í borgarstjóratíð Jóns Gnarr, hafi félagslegu húsnæði í borginni ekki fjölgað mikið.

Ferðavenjur borgarbúa þurfi að breytast

Hún segir borgarlínuna mikilvæga nýja meirihlutanum. „Það eru vistvænar samgöngur, almenningssamgöngur og í þessum meirihluta leggjum við mikla áherslu á að fólk hafi það frelsi að velja sér ekki einkabílinn.“

Í meirihlutasáttmálanum er talað um að „unnið verði gegn svifryki“. Hvernig ætlar meirihlutinn að gera það?

„Við þurfum auðvitað að breyta ferðavenjum okkar,  það er fyrst og fremst það en við getum líka rykbundið oftar og ég gæti nefnt fleiri tæknilega þætti, en það helst margt í hendur. Við getum líka gripið til sértækra aðgerða, t.d. eins og að bjóða frítt í strætó ef að við sjáum fram á að svifryk mælist mjög hátt, þannig að fólk leggi bílunum einfaldlega.

Líf segir að taka þurfi á notkun nagladekkja í borginni og að draga þurfi úr mengandi bílaumferð.

„Það er helsta markmiðið en ég held að við þurfum að grípa til margþættra aðgerða til þess að það myndist ekki þetta svifryk í framtíðinni,“ segir Líf.

Myndirðu segja að markmið þessa meirihluta væri að fækka þeim bílferðum sem eru farnar í Reykjavík á hverjum einasta degi?

„Það er markmiðið og það er líka markmiðið með borgarlínunni að gera það og gera almenningssamgöngur þannig að fólk velji þær frekar eða geti hjólað,“ segir Líf og bætir því við að það sé sannað að bygging umferðarmannvirkja eins og mislægra gatnamóta skapi meiri umferð akandi og sömuleiðis að bygging öruggra hjólastíga fái fleiri til þess að stíga á hjólið.

mbl.is