Myndum af nýrri útgáfu vinsæla jeppans Suzuki Jimny voru birtar í gær, í kjölfar þess að nokkrum myndum af þróunarakstri bílsins hafði verið lekið á netið. Er þar um að ræða lítinn bíl sem ætti að vera knár til aksturs utan hefðbundinna bílvega, eins og forverar hans.
Hér er á ferðinni fjórða kynslóð Jimny otg verður hann með drifi á öllum fjórum hjólunum. Þótt hann haldi um flest tryggð við grunnhugmyndir Jimny um dagana þá er hinn nýi ögn stærri en forverinn og hresst hefur verið aðeins upp á útlitsstílinn.
Líklegt er að Jimny verði knúinn nýjum Suzuki Boosterjet vélum sem bæta munu afl hans, tog og skilvirkni vélarvinnslunnar umfram gömlu 1.3 vélarinnar.
Þótt myndirnar, sem birtust á fésbókinni, virðast sýna bíl sem sé að nálgast mjög framleiðsluútgáfu er nýr Jimny ekki væntanlegur á götuna fyrr en á næsta ári, 2019. Langt er síðan gagnger uppfærsla hefur farið fram á Jimny og því gæti orðið fróðlegt hvernig tekst með vinsældir fjórðu kynslóðar jeppans smáa en knáa.