BMW flytur hluta framleiðslunnar frá BNA

Ljósmynd/Wikipedia

Þýski bílaframleiðandinn BMW gaf í gær út að hann hygðist flytja hluta framleiðslu jepplinga sinna frá Bandaríkjunum. Ákvörðunin kemur í kjölfar tollalagningar Bandaríkjastjórnar á ýmsar erlendar vörur en Kínverjar svöruðu með 40 prósenta tolli á bíla framleidda í Bandaríkjunum.

BMW hefur náð samkomulagi við kínverskan samstarfsaðila, Brilliance Automotive Group Holdings, um að auka framleiðslu í landinu og gert ráð fyrir að 520.000 BMW-bílar verði framleiddir árlega frá árinu 2019.

„Samningur okkar er grundvöllur framtíðarvinnu í Kína og sú framtíð felur í sér áframhaldandi fjárfestinu, meiri vöxt og skýra skuldbindingu til þróunar og framleiðslu á rafbílum,“ sagði Harald Krueger forstjóri BMW í yfirlýsingu í tilefni af ákvörðuninni.

BMW er stærsti útflytjandi bíla frá Bandaríkjunum og í verksmiðju fyrirtækisins í Spartanburg í Suður-Karólínu starfa 10.000 manns. Það er stærsta verksmiðja BMW í heiminum og tegundir á borð við X3, X4, X5 og X6 eru framleiddar þar.

mbl.is