140 bíða eftir rafbílum

Mikill áhugi virðist vera á hreinum rafbílum um þessar mundir og eru 140 manns á biðlista vegna tveggja nýrra tegunda sem búa yfir töluvert meira drægi en áður þekkist ef bílar frá Tesla eru undanskildir.

Annars vegar er um að ræða Hyundai Kona EV og hins vegar Kia Niro EV. Báðir bílar hafa drægi sem nær vel á fimmta hundrað kílómetra, en um nokkurs konar jepplinga er að ræða. Að sögn sölustjóra Hyundai og Kia er beggja bíla beðið með mikilli eftirvæntingu. Tæplega 100 eru á biðlista vegna Hyundai Kona og 40 manns hafa þegar greitt staðfestingargjald fyrir Kia Niro.

„Síðustu tvö ár hefur aukningin verið mikil. Fólk sér að þetta er að virka og er ekki eins hrætt við þetta í dag eins og það var,“ segir Ragnar Sigþórsson, sölustjóri Hyundai hjá bílaumboðinu B&L. „Við höfum aldrei fundið fyrir svona áhuga á rafmagnsbíl áður,“ segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá bílaumboðinu Öskju. Hlutfall nýskráðra rafbíla fer vaxandi og það sem af er ári stendur það í 4,6% af heildarnýskráningum en það hlutfall nam 3,3% í fyrra, að því er fram kemur í umfjöllun um rafbílasöluna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina