Hönnun umferðarmannvirkja ábótavant

mbl.is/Júlíus

„Þegar horft er á höfuðborgarsvæðið virðist augljóst að aðgerðarleysi varðandi endurbætur á gatnakerfinu með tilliti til umferðarflæðis hefur stórskaðað loftgæði. Umferð hefur aukist ár frá ári og stærstu aðgerðirnar í umferðarmálum á leiðum inn að borgarmiðju hafa að verulegu leyti falist í þrengingum gatna.“

Þannig er komist að orði í fréttaskýringu í nýjasta eintaki Bændablaðsins. Segir höfundurinn, Hörður Kristjánsson, að hönnun umferðarmannvirkja á Íslandi með tilliti til umferðarflæðis og minni loftmengunar sé verulega ábótavant.   

„Á hverjum virkum degi má sjá óslitna lest ökutækja flæða að háskólahverfinu í Vatnsmýri, Landspítalanum og að miðborg Reykjavíkur. Þessi óslitna bílaröð nær alla leið í Hafnarfjörð og upp í Mosfellsbæ. Tíminn sem þessar óslitnu hægfara bílalestir malla og spúa mun meiri mengun en annars þyrfti lengist stöðugt. Bæði á morgnana og eftir hádegi. Þannig stendur mesti umferðarþunginn í um tvo til þrjá klukkutíma bæði kvölds og morgna.

Ekið yfir „mjúka“ hraðahindrun.
Ekið yfir „mjúka“ hraðahindrun. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Lítið heyrist hins vegar frá þeim sem ráða skipulagsmálum um að liðka eigi fyrir þessari umferð til að draga úr loftmengun. Þvert á móti hefur verið barist gegn endurbótum á gatnamótum eins og á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, svo ekki sé talað um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Töfralausnin virðist hins vegar vera að ríkið hækki kolefnisskatt á sumar tegundir bifreiða,“ segir í fréttaskýringunni.

Menga meiri á lítilli ferð

Rakið er með skírskotun til erlendra rannsókna, að hraðahindranir auki mengun bíla um 47 til 98%, sem samsvaraði áhrifum þess að bætt hafi verið 50 til 100 þúsund bensín- og dísilknúnum bifreiðum á götur höfuðborgarsvæðisins.

Rakið er í greininni, að því hægari sem umferðin er því mun meiri er mengunin. Umferðarteppur orsaki því meiri mengun. Segir að margar umferðarannsóknir virtra erlendra stofnana í Bretlandi á síðustu árum hafi sýnt fram á skaðsemi hraðahindrana með tilliti til loftmengunar.  

Greiða fyrir umferð fremur en hindra hana

„Þar sem þetta eru alls ekki nýjar staðreyndir, þá hefði íslenskum umferðaryfirvöldum átt að vera fullkunnugt um þær. Samt mætti ætla annað af hönnun umferðarmannvirkja og framkvæmdaleysi við úrbætur á umferðarflæði á liðnum misserum og árum í mesta þéttbýli landsins.
 Bresk yfirvöld hafa nú valið þá leið að reyna að greiða fyrir umferð fremur en að draga úr hraða með hindrunum,“ segir í fréttaskýringu Bændablaðsins.  Vitnað er til rannsókna háskólans í Jórvík og Imperial College háskólans í London, en í þeim kom fram, að hraðahindrun sem dregur úr hraða framkallar óhjákvæmilega hraðaaukningu ökutækja í kjölfarið. Það valdi verulega aukinni mengun lofttegunda eins og koltvíildis og nituroxíðs og öreinda og sótagna en yrði ef umferðarflæði væri jafnara. Því bæri að fjarlægja hraðahindranir, ekki síst við skóla og leiksvæði barna, enda væri mengun af þessu tagi sérlega skaðleg börnum. Kom líka fram að auk þess sem hraðabreytingar bifreiða valda aukinni loftmengun, þá losa bílar sem bremsa vegna hindrananna frá sér skaðlegar agnir úr bremsuborðum.

Alastair Lewis, prófessor í efnafræði andrúmsloftsins við Yorkháskóla, sagði að rannsóknirnar hafi sannað að sú aðferð að neyða ökumenn til að hægja á sér og auka síðan hraðann að nýju á stuttum vegalengdum leiddi til aukinnar loftmengunar. „Það voru öryggissjónarmið sem leiddu til þess að hraðahindranir voru settar upp, en þá höfðu menn loftgæðin ekki í huga,“ sagði Lewis. Rannsóknirnar sýna allt að 98% aukna mengun nituroxíðs í hraðahindrunargötum. Á götu í London sem var með hefðbundnar harðar hraðahindranir jókst losun nituroxíðs í bensínknúnum bíl um 64%. Þá jókst útblástur sótagna um 47% og koltvísýrings um 60%, miðað við akstur í sambærilegri götu með því sem kallað er mjúkar hraðahindranir.

60% meiri bensíneyðsla

Félag breskra bifreiðaeigenda (AA), komst að mjög svipaðri niðurstöðu í sínum athugunum. Þar var niðurstaðan sú, að bifreið sem eyddi 7,31 lítra á hundraðið á vegi sem var ekki með neinar hraðahindranir, jók eyðsluna í 11,74 lítra, eða um 60%, á vegi sem var með hraðahindrunum. Bentu  samtökin á opinberar rannsóknir sem sýndu að eldsneytiseyðslan tvöfaldaðist í bílum við að aka þar sem hraðahindranir eru.  

mbl.is

Bloggað um fréttina