Tékkneski bílsmiðurinn Skoda sem svo margir Íslendingar þekkja til að fornu og nýju setti nýtt met á nýliðnu ári, er það afhenti kaupendum 1.253.700 bíla um heim allan.
Er þetta 4,4% aukning frá árinu 2017 en mest jókst salan í Evrópu, Rússlandi og Kína.
Og með þessu er Skoda fimmta árið í röð með meira en milljón bíla sölu á ári. Alls voru 745.000 Skodabílar afhentir kaupendum í Evrópu 2018. Í Rússlandi jókst salan um 30,7% en þar voru 81.500 bílar afhentir, miðað við árið 2017. Í Kína voru afhentir 341.000 bíll sem er 4,9%.
Jepparnir Kodiaq og Karoq sóttu mest í sig veðrið af bílum Skoda. Seldust 149.200 eintök af Kodiaq 2018, sem er 49,3% aukning frá árinu áður. Og Karoq fór í 115.700 eintökum en hann kom á götuna í fyrra.
Vinsælasti bíll Skoda á nýliðnu ári var Octavia sem seldist í 388.200 eintökum. Næst vinsælasta módelið var Rapid (191.500) og í því þriðja Fabia (190.900).