Meira en helmingur allra bíla er með of lítinn, mikinn eða mismikinn loftþrýsting í dekkjum samkvæmt nýrri könnun sem VÍS gerði á ástandi dekkja um 100 tjónabíla. Í tilkynningu frá VÍS segir að það verði að teljast áhyggjuefni því loftþrýstingur hefur áhrif á stöðugleika, hemlunarvegalengd og þar af leiðandi almennt öryggi ökutækja.
53% bíla í könnuninni voru með of lítinn, mikinn eða misjafnan loftþrýsting í dekkjum, en 43% í fyrra og 8% voru á sumardekkjum að hluta eða öllu leyti, samanborið við 2% í fyrra. Þá voru 45% bíla á negldum dekkjum í ár og 45% á vetrar- og heilsársdekkjum og þar af 29% á dekkjum sem voru merkt hvort tveggja.
Könnun VÍS leiddi einnig í ljós að of margir ökumenn eru ekki með nægjanlega góð dekk undir bílunum sínum. Til dæmis voru 14% ökutækja með hjólbarða sem höfðu minna en 3 mm dekkjamynstur, en 3 mm er það lágmarksviðmið sem sett hefur verið í reglum um mynstursdýpt yfir vetrartíma. Þá voru 8% ökutækja á sumardekkjum að hluta eða öllu leyti, þrátt fyrir að könnunin hafi verið gerð um hávetur.
VÍS hefur frá 2012 gert kannanir á dekkjabúnaði tjónabíla að vetri til og má sjá mikla breytingu til batnaðar sér í lagi eftir 2014 þegar reglur um mynstursdýpt hjólbarða yfir vetrartíma voru hertar.
Árið í fyrra kom mjög vel út miðað við fyrri kannanir en í ár er annað upp á teningnum því samkvæmt könnuninni sem gerð var núna í febrúar komu allar mælingar um ástand dekkja verr út en árið á undan.