Bílaumboðið Askja mun kynna nýjan og uppfærðan Kia Optima í tengiltvinn útfærslu í höfuðstöðvum sínum að Krókhálsi næstkomandi laugardag frá klukkan 12 til 16.
Optima er einn af sjö bílum Kia sem fást í rafbílaútfærslu, hvort sem er tvinnbíll, tengiltvinnbíll eða hreinn rafbíll. Hann kemur bæði sem fjögurra dyra stallbakur og fimm dyra langbakur.
„Nýr Kia Optima er með nýtt útlit á fram- og afturstuðurum auk þess sem bíllinn fær ný LED ljós að framan og aftan. Nýt krómgrill að framanverðu gefur bílnum einstaklega fallega ásýnd. Að innanverðu er komið nýtt og sportlegt stýri auk fleiri flottra breytinga sem gera bílinn enn glæsilegri. Hátæknivæddur 8 tommu snertiskjár er áberandi í innanrými bílsins og bíður upp á tengimöguleika við Android Auto og Apple CarPlay. Optima er mjög rúmgóður fjölskyldubíll og býður upp á gott pláss fyrir farþega og farangur,“ segir í tilkynningu.
Kia Optima er tengiltvinnbíll sem samanstendur af 50 kílówatta rafmótor og tveggja lítra, fjögurra sílindra, GDI bensínvél. Samanlagt skilar tengiltvinnvélin 205 hestöflum og 375 Nm í togi. Rafmótorinn skilar 156 hestöflum og 189 Nm í togi ef ekið er einungis á rafmagninu. Bíllinn er með 64 km rafdrægi við bestu aðstæður.
Kia Optima er fáanlegur með öllum nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Kia og kemur með 7 ára ábyrgð frá framleiðanda.