Sala á nýjum fólksbílum hefur dregist saman um hátt í 40% frá sama tíma í fyrra, að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, formanns Bílgreinasambandsins. Fyrirtækin þurfa að bregðast við og í gær sagði t.d. bílaumboðið Hekla hf. upp tólf starfsmönnum vegna hagræðingar. Hjá Heklu hf. starfa um 140 manns.
Sala notaðra bíla hefur verið góð og svipuð og hún var á sama tíma í fyrra. „Þetta hefur verið ansi þungur vetur og vor,“ sagði Jón Trausti. Hann sagði að samdráttar í sölu nýrra bíla hefði strax farið að gæta á liðnu hausti þegar verkalýðsforingjar gáfu mjög harðar yfirlýsingar um væntanlegar kjaraviðræður. Í kjölfarið fylgdu vandræði í flugrekstri sem ollu óvissu meðal almennings. Gjaldþrot WOW air vó þungt en einnig erfiðleikar Icelandair vegna Boeing 737 MAX-8 flugvélanna sem voru kyrrsettar. Hvort tveggja hafði mikil áhrif á ferðaþjónustuna. Auk þess er krónan heldur veikari nú en á sama tíma í fyrra.
„Það eru því samverkandi áhrif margra þátta sem ollu því að bílasala gekk fremur rólega í vetur og fram á vorið,“ sagði Jón Trausti. „Um leið hefur verið töluverð umræða um orkuskipti sem þýðir að fólk er farið að huga að nýjum valkostum. Bílaumboðin reyna að bregðast við á ábyrgan hátt. Það er leitt ef kemur til uppsagna en það liggur rík skylda á stjórnendum fyrirtækjanna að bregðast við markaðnum og laga sig að aðstæðum. Ég tel að flestir í bílgreininni horfi til þess að hagræða og stilla sinn rekstur í takt við það sem markaðurinn leyfir.“
Í umfjöllun um bílasöluna í ár í Morgunblaðinu í dag segir Jón Trausti að samdráttur í flugi og komu ferðamanna hafi áhrif á bílaleigurnar. Bókunarstaða þeirra er almennt nokkuð góð í sumar en verri þegar kemur fram á haustið.