Sala bíla sem eingöngu ganga fyrir rafmagni hefur aukist um 52% á fyrri helmingi ársins hérlendis samanborið við fyrri helming síðasta árs. Þetta kemur fram í nýjum samanburði vefritsins EV-Volumes.com.
Þar kemur einnig fram að Íslendingar séu í öðru sæti meðal Evrópuþjóða þegar litið er til hlutdeildar seldra rafbíla af seldum nýjum bílum í hverju landi fyrir sig. Norðmenn sitja í efsta sætinu.
Rafbílar og tengiltvinnbílar eru nú fjögur til fimm prósent af heildarbílaflota Íslendinga, að því er fram kemur í umfjöllun um rafvæðingu bílaflotans í Morgunblaðinu í dag.