Sigríður furðar sig á pálmaolíuviðsnúningi

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Arnþór

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að nokkrir þingmenn vinstri flokkanna hafi lagt fram þingsályktunartillögu um bann við notkun pálmaolíu á bíla.

„Þetta kemur á óvart því aðeins eru sex ár síðan ríkisstjórn vinstri flokkanna leiddi það í lög að allt eldsneyti skyldi blandað „endurnýjanlegu eldsneyti“ sem einkum er unnið úr pálmum og matjurtum á borð við repju, soja og maís.“ Þetta kemur fram í pistli sem Sigríður birti í gær, sem ber yfirskriftina „Vilja banna pálmaolíuna sem þau skylduðu okkur að nota á bílana“. 

Ellefu þingmenn úr fjórum flokkum standa að þingsályktunartillögu um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi, þ.e. þingmenn Samfylkingar, VG, Viðreisnar og Pírata. Þar kemur fram, að Alþingi eigi að álykta að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi „og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2020.“

Milljarður renni úr ríkissjóði til erlendra framleiðenda

Sigríður segir, að fyrir átta árum hafi vinstri stjórnin lögfest „stórkostlegar skattaívilnanir til örvunar innflutnings á slíku matjurtaeldsneyti. Þessi skylda og skattaívilnanir standa því miður enn og valda því að yfir milljarður króna rennur árlega úr ríkissjóði til erlendra framleiðenda á eldsneyti úr pálmaolíu, repju, hveiti, soja og maís, sbr. svar fjármálaráðherra til mín um þetta atriði.“

Sigríður tekur fram, að hún hafi af og til mælt gegn þessum lögum og skattaílvilnunum vinstri stjórnarinnar og árið 2015 hafi hún lagt fram frumvarp um að aflétta þessari íblöndunarskyldu til ársins 2020 „svo menn fengju ráðrúm til að skoða málið ofan í kjölinn áður en svo miklum fjármunum væri kastað á glæ.“

Hafi þvert á móti aukið losun

Hún segir að lokum, að nú hafi þingmenn Samfylkingar og VG komist að þeirri niðurstöðu að „lög hreinu vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti sem áttu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafi þvert á móti aukið losunina, valdið stórkostlegri loftmengun í Asíu, auk þess að stuðla að eyðingu regnskóga, ógna líffræðilegri fjölbreytni og ýta undir vinnuþrælkun og illa meðferð á konum og börnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina