Nexo með fullt hús öryggisstiga

Þjarmað var að Hyundai Nexo í höggprófunum IIHS.
Þjarmað var að Hyundai Nexo í höggprófunum IIHS.

Sérfræðingum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar IIHS prófuðu á dögunum öryggi Hyundai Nexo og var það í fyrsta sinn sem rafknúinn vetnisbíll var tekinn í árekstrarprófanir hjá IIHS.

Niðurstaðan var fullt hús stiga; 12 stig og lokaeinkunnin Pick+ (12 Top Safety Pick/Top Safety Pick+) á bandaríska markaðnum.

Til að hljóta einkunnina þurfa nýir bílar að standast margvísleg próf og högg á framenda, framhorn, þak og fleiri staði yfirbyggingarinnar sem geta valdið alvarlegum áverkum í árekstri sé höggþolið ekki nægilegt en um leið nægilega sveigjanlegt til að „gleypa“ högg til verndar farþegum.

„Í prófunum IIHS kom Nexo vel út í öllum meginflokkunum sex sem höggprófin innihalda. Þess utan hlaut Nexo framúrskarandi einkunn fyrir sjálfvirku árekstarvörnina sem í prófunum kom í veg fyrir aftanákeyrslu á mismunandi hraða sem IIHS prófaði; um 20 km/klst og síðan á 40 km/klst). Niðurstaðan var að Nexo inniheldur öryggisforvarnarkerfi sem stenst allar ströngustu staðla sem IIHS gerir,“ segir í tilkynningu.

Árekstrarvörnin er staðalbúnaður í Nexo, rétt eins og margur annar öryggis- og þægindabúnaður, þar á meðal sá sem skiptir sjálfvirkt milli háa og lága ljósgeisla framljósanna þegar ökumaður mætir öðrum bíl í myrkri.

mbl.is

Bloggað um fréttina