Sport- og lúxusbílasmiðurinn Aston Martin hefur ákveðið að ganga í sömu átt og keppinautarnir og bjóða upp á jeppa. Sinn fyrsta slíkan sýndi hann á bílasýningunni í Los Angeles.
Það var Porsche sem kom hringekjunni af stað með Cayennejeppanum á sínum tíma. Í millitíðinni hafa Bentley, Rolls-Royce og Lamborghini sent frá sér jeppa. Aston Martin kynnti áform sín með þróuarbíl á Genfarsýningunni fyrir rúmum fjórum árum.
Þróunarbíllinn var tveggja dyra og með afturhallandi þaki en hinn fullskapaði jeppi Aston Martin er fjögurra dyra og meira jeppalaga. Hefur hann fengið nafnið DBX.
Undir vélarhlífinni er að finna V8 vél með tvöfaldri forþjöppuð er skilar allt að 550 hestöflum til hjólanna gegnum níu hraða gírkassa. Upptakið er 700 Newtonmetrar. Þessi 2,2 tonna bíll kemst á hundraðið úr kyrrstöðu á aðeins 4,5 sekúndum. Hámarkshraði er 295 km/klst.
DBX er 5,04 metra langur, 2,00 metrar á breidd og hæð lægsta punktar yfir malbikinu er 16,8 sem. Hjólhafið mælist 3,06 metrar og farangursgeymslan er 85 lítra.
Fyrir liggur verð á DBX jeppanum í Þýskalandi en það nemur 193.500 evrum, eða rúmum 26 milljónum króna. Fyrstu kaupendur fá bílinn afhentan á öðrum ársfjórðungi 2020.