Nýr og endurhannaður Subaru Forester e-Boxer Hybrid sem BL frumsýnir í janúar hefur hlotið hæstu mögulega einkunn evrópsku öryggisstofnunarinnar Euro NCAP fyrir framúrskarandi alhliða öryggi. Þar á meðal fyrir börn og fullorðna farþega, gangandi vegfarendur og öryggisaðstoð við ökumann.
Í öllum flokkum voru einkunnir vel yfir því lágmarki sem þarf til að hljóta 5 stjörnur í prófunum Euro NCAP og er heildareinkunninn sú hæsta sem Forester hefur hlotið frá upphafi, segir í tilkynningu.
Ver alla mikilvæga líkamshluta
Niðurstöður ólíkra öryggisprófana Euro NCAP færðu nýjum Forester m.a. hæstu einkunn frá upphafi í sínum flokki fyrir öryggi barna og kemur fram að við þung högg á framenda og hliðar bílsins hafi Forester veitt góða vernd fyrir alla mikilvæga líkamshluta. Þess má geta að loftpúði fyrir farþega í framsæti bílsins aftengist sjálfkrafa þegar barnabílstóll sem snýr baki í loftpúðann er festur í sætið og var þetta öryggisatriði sérstaklega tiltekið í skýrslu Euro NCAP.
„Prófanir sýndu að öryggiskerfin virka vel og á traustvekjandi hátt auk þess sem ólíkar festingar bílaukahluta á borð við barnabílstóla sem Forester er hannaður fyrir virka vel og var auðvelt að koma þeim fyrir í bílnum og festa á réttan hátt. Fyrir vikið hlaut Forester háa einkunn í þessum flokki,“ segir ma. í niðurstöðu Euro NCAP við þennan þátt prófsins.
Hæsta einkunn IIHS
Þess má einnig geta að hinn nýi Forester hefur þegar hlotið hæstu öryggiseinkunn Umferðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (IIHS), þar sem sérstaklega var tekið til nýju útlitshönnunarinnar sem eykur öryggi gangandi vegfarenda auk sjálfvirku neyðarhemlunarinnar sem tengd er öryggiskerfinu EyeSight sem fjölmargir prófanaaðilar hafa gefið þá einkunn á undanförnum árum að sé það fremsta á markaðnum.