Fleiri Tesla-stöðvar opnaðar á árinu

Tesla opnaði starfsstöð og ofurhleðslustöð á Krókhálsi á síðasta ári. …
Tesla opnaði starfsstöð og ofurhleðslustöð á Krókhálsi á síðasta ári. Á þessu ári er stefnt að því að opna tvær aðrar ofurhleðslustöðvar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafbílaframleiðandinn Tesla ætlar að opna fleiri ofurhleðslustöðvar á þessu ári og hefur bætt Akureyri við sem stað þar sem koma á upp hleðslustöð. Greint er frá þessu í tilkynningu frá samskiptastjóra Tesla í Noregi, sem sér um íslenska markaðinn, og á uppfærðu Íslandskorti á heimasíðu fyrirtækisins.

Tesla opnaði starfsstöð sína á Krókhálsi og ofurhleðslustöð á síðasta ári, en með áformum félagsins verður hægt að keyra hringinn í kringum landið á rafbílum fyrirtækisins og hlaða þá á stöðvunum.

Samkvæmt korti á vefsíðu Tesla kemur fram að nýju stöðvarnar sem opna eigi verði á Stað í Hrútafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Kirkjubæjarklaustri, en í fyrstu áætlunum var ekki gert ráð fyrir Akureyri.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að stöðvar á Akureyri og Egilsstöðum verði opnaðar á þessu ári, en ekki hefur enn verið gefið upp hvenær hinar tvær stöðvarnar eigi að opna.

Með ofurhleðslu er hámarkshleðslan 120 kW og skilar það um 270 kílómetra drægni Tesla-bifreiða á um hálftíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina