Enn samdráttur í sölu nýrra bíla

Nýir bílar í Sundahöfn.
Nýir bílar í Sundahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Bílasala fer nokkuð rólega af stað á þessu ári miðað við fyrra ár en í janúar seldust 709 nýir fólksbílar, samanborið við 846 í janúar í fyrra. Er því um að ræða 16,2% samdrátt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu en þrátt fyrir hæga byrjun spáir sambandið því að í heildina muni salan aukast um 10% á árinu og nýir seldir bílar verði 12.750 við árslok. Gerir sú spá ráð fyrir að vöxturinn muni fyrst og fremst verða í vor og á seinni hluta ársins.

Nýorkubílar yfir helmingur seldra

Meirihluti þeirra bíla sem seldur var í janúar, 52,2 %, voru nýorkubílar. Þar af voru tengiltvinnbílar 18,9% af sölu nýrra fólksbíla, rafmagnsbílar 18,5%, hybrid 13,7% og metan 1,1%. Til samanburðar var hlutfall vistvænna bíla af nýjum seldum fólksbílum 27,5 af heildarsölunni í fyrra.

Meðalaldur fólksbílaflotans er nú um 12,3 ár og hefur farið hækkandi, sem kallar á endurnýjun, að því er fram kemur í ofannefndri tilkynningu. Þar segir einnig: „Þá er eyðsla og mengun bíla með hefðbundnum orkugjöfum sífellt að fara lækkandi ásamt því sem úrval og drægni bæði rafmagns- og tengiltvinnbíla er að aukast og mun það halda áfram vel inn á árið 2020.

Þetta ætti að leiða til þess að fleiri einstaklingar og fyrirtæki finni sér valkost sem hentar þeim auk þess sem nú er loks búið að eyða óvissu um hvort vistvænir bílar njóti áfram ívilnana við kaup. Þá er einnig líklegt að bílaleigur þurfi að halda áfram að endurnýja flotann sinn þar sem hann hefur elst á síðustu misserum.“

mbl.is