Sala nýrra tvinnbíla verður bönnuð í Bretlandi frá 2035

Aston Martin DBX á reynsluakstursbraut. Bresk stjórnvöld þrengja æ meira …
Aston Martin DBX á reynsluakstursbraut. Bresk stjórnvöld þrengja æ meira að bensínbílum. AFP

Sala nýrra tengiltvinn- og tvinnbíla verður bönnuð í Bretlandi frá og með árinu 2035, til að draga úr sótspori landsins. Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti þetta á dögunum, en sagt er frá málinu í The Daily Telegraph.

Sala nýrra bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti verður bönnuð í landinu frá sama tímapunkti. Ástæðan fyrir því að tvinnbílar eru nú komnir inn í jöfnuna í Bretlandi er sú, eins og segir í Telegraph, að ýmsir hafa haft áhyggjur af því að slíkir bílar noti rafmagn aðeins takmarkað í akstri, áður en jarðefnaeldsneytið tekur við því hlutverki að knýja bílinn áfram.

Bílgreinasambönd í Bretlandi tala um svik við eigendur tvinnbíla í landinu, og að ákvörðunin muni hafa afleiðingar. Segja þeir að tugir þúsunda bíleigenda hafi verið hvattir til þess að kaupa farartækin í þeirri trú að þau væru umhverfisvæn, og óttist nú að endursöluverðið muni falla eftir því sem árið 2035 færist nær.

Í loftslagsáætlun íslensku ríkisstjórnarinnar frá árinu 2018, sem nú er í endurskoðun, er gert ráð fyrir að banna sölu nýrra jarðefnaeldsneytisbíla frá árinu 2030, fimm árum fyrr en í Bretlandi. Ekki er þó kveðið sérstaklega á um tvinnbíla í áætluninni.

Lína dregin í sandinn

Sigríður Halldórsdóttir, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið að með því að tala um bensín- og dísilbíla í áætluninni hafi verið dregin lína í sandinn, til að stuðla að minni umhverfisáhrifum bílaflotans. „Nú er verið að útfæra þetta nánar, og það er von á uppfærðri áætlun á næstu vikum. Þar verða ýmsar breytingar kynntar til sögunnar.“

Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins, segir í samtali við Morgunblaðið að sú áætlun ríkisstjórnarinnar að banna sölu nýrra jarðefnaeldsneytisbíla frá 2030 sé hvatning til fólks um að búa sig undir tímamótin. Hann segir að þetta megi sjá nú þegar í sölutölum. Það sem af er ári eru „nýorkubílar“ að hans sögn 35% seldra fólksbíla, þ.e.a.s. bíla sem knúnir eru rafmagni að öllu leyti eða tengiltvinnbílar. Tvinnbílar séu þar til viðbótar rúmlega 15% af heildarfjölda seldra fólksbíla. Jón Trausti hefur trú á að Íslendingar verði löngu búnir að skipta yfir í umhverfisvæna kosti áður en að árinu 2030 kemur. „Bílaheimurinn allur er að fara mjög hratt í áttina að umhverfisvænni kostum.“

Jón Trausti segir að drægi rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla aukist með hverri nýrri kynslóð sem komi á markaðinn. „Drægi tengiltvinnbíla á rafmagni er t.d. allt að 100 km í dag, sem þýðir að eigandinn er að keyra kannski hátt í 80% af sínum akstri á rafmagni ef hann hleður bílinn reglulega.“

Spá 10% vexti í bílasölu

Nú eru um 280.000 skráðar bifreiðar á Íslandi, að sögn Jóns Trausta, en nýskráningar hafa verið um 12-20.000 bílar á ári. „Stefna ætti að því að hækka til muna hlutfall rafbíla og annarra vistvænna ökutækja, þannig að þeir verði a.m.k. um 100.000 árið 2030. Við gerum ráð fyrir að sala nýrra bíla aukist um 10% á þessu ári sem er mjög hófsamur vöxtur en raunhæfur um leið, þar sem kaupmáttur er sterkur hér á landi,“ segir Jón Trausti.

Umhverfið
» Nýskráðir hafa verið um 12-20.000 bílar á ári á Íslandi.
» Nýorkubílar eru 35% seldra fólksbíla hér á landi það sem af er þessu ári.
» Ekki er kveðið sérstaklega á um tvinnbíla í íslensku loftslagsáætluninni frá árinu 2018.
» Formaður Bílgreinasambandsins hefur trú á að Íslendingar verði löngu búnir að skipta yfir í umhverfisvæna kosti fyrir árið 2030.
Sala nýrra tengiltvinn- og tvinnbíla verður bönnuð í Bretlandi frá …
Sala nýrra tengiltvinn- og tvinnbíla verður bönnuð í Bretlandi frá og með árinu 2035, til að draga úr sótspori landsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka