Fyrsta Mazdan stendur á sextugu

Mazda R360 er áhugaverður að sjá.
Mazda R360 er áhugaverður að sjá.

Japanski bílaframleiðandinn Mazda var stofnaður fyrir hundrað árum, 1920, en fjörutíu ár liðu þar til fyrsti einkabíll fyrirtækisins sá dagsins ljós.

Framan af gekk fyrirtækið undir nafninu Toyo Kogyo og framleiddi einkum íhluti í vélar. Það reyndist ekki ábatasamt til lengdar og að því kom að bæði bankar og kaupsýslumenn í Hiroshima hlupu undir bagga og forðuðu fyrirtækinu frá gjaldþroti.
 
Settust menn niður og veltu vöngum yfir því hvað fyrirtækið gæti tekið sér fyrir hendur. Niðurstaðan var að smíða þriggja hjóla skúffubíl, Mazda Go,  sem kom á götun 1931. Sú ákvörðun að smíða þriggja hjóla léttivagn átti eftir að reynast vera snjöll.

Í seinna heimsstríðinu framleiddi Mazda einnig vopn fyrir japanska herinn. En á sjötta áratugnum gældu forsvarsmenn fyrirtækisins við þá hugsun að framleiða einkabíl. Rann sá fyrsti svo af færiböndunum í maí 1960. Hlaut hann nafnið Mazda R360. Hann var smár í sniðum og undir þremur metrum að lengd.

R360 var með öllu óþekktur utan Japans en á heimavelli náði Mazda gríðarlegum árangri með honum. Seldust 4.500 eintök á fyrsta degi og innan árs var hlutdeild bílsins í japanska markaðinum tveir þriðju.

Bílarnir voru nefndir Mazda en framleiðandinn var áfram undir upprunalegu heiti, Toyo Kogyo. Átti nafnbreyting sér ekki stað fyrr en  1984.

R360 vó 380 kíló og með 16 hestafla vélinni mátti koma bílnum á allt að 90 km/klst. hraða.

mbl.is