Bifhjólafólk þarf að hugsa fyrir tvo

Grétar Viðarsson ökukennari.
Grétar Viðarsson ökukennari. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Verkleg mótorhjólakennsla fer yfirleitt ekki af stað fyrr en í byrjun sumars enda þarf að vera tiltölulega hlýtt úti ef nemendum á ekki að verða kalt við kennsluna. Þetta segir Grétar Viðarsson, ökukennari hjá Ekli.

„Hinn dæmigerði nemandi sem kemur til mín til að læra á mótorhjól er karlkyns og í kringum þrítugt en hópurinn er samt mjög fjölbreyttur, nemendur á öllum aldri og töluvert af konum en elsti mótorhjólanemandi minn var orðinn hálfsjötugur.“

Bóklega og verklega námið er ekki svo dýrt og áætlar Grétar að hjá þeim ökuskólum sem bjóða upp á bifhjólakennslu sé heildarkostnaður nemenda í kringum 150.000 kr. Námið er mislangt eftir því hvers konar ökuréttindi nemendur hafa þegar öðlast og geta t.d. þeir sem hafa bílpróf sleppt hluta af bóklega náminu.

Bifhjólaréttindum er skipt í nokkra flokka: „Til að aka léttum bifhjólum í flokki 1 þarf ekki að ljúka sérstöku ökunámi og aðeins gerð krafa um að ökumaður sé orðinn 13 ára,“ segir Grétar en í flokk 1 falla vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná að hámarki 25 km/klst. hraða.

Næst kemur flokkur AM sem leyfir akstur mótorhjóla með allt að 50 cc vél og hámarkshraða allt að 45 km/klst. „Til að fá AM-réttindi þarf fólk að hafa náð 15 ára aldri, taka 12 kennslustundir af bóklegu námi, 8 verklegar kennslustundir og þreyta próf,“ útskýrir Grétar en þeir sem ljúka venjulegu bílprófi fá einnig AM-réttindi án frekari þjálfunar eða prófa.

Réttindi til að aka stærri bifhjólum skiptast í þrjá flokka: A1, A2 og A. Hverjum flokki fylgja viss aldursskilyrði og takmarkanir á því hversu aflmiklu mótorhjóli má aka. Bóklega námið fyrir flokka A2 og A er 24 stundir en nemendur með B-ökuréttindi fá 12 stundir metnar. Fyrir A1-réttindi þarf að ljúka 5 klst. af verklegri kennslu en 11 stundum fyrir A2- og A-réttindi en hægt er að fá 5 stundir metnar ef nemandi hefur þegar fengið A1-réttindi.

Lágmarksaldur fyrir A1-réttindi er 17 ár og fyrir A2-skírteinið er miðað við 19 ára aldurslágmark. Loks þurfa nemendur að vera orðnir 24 ára til að fá A-skírteini. „Undantekning frá þessu er að ökumaður sem hefur verið með A2-skírteini í tvö ár getur tekið próf til að fá A-skírteini þó hann hafi ekki náð 24 ára aldri,“ útskýrir Grétar.

A1-flokkur nær yfir mótorhjól með slagrými allt að 125 cc, A2-flokkur miðar við afl allt að 35 kw og allt að 0,2 kw/kg en handhöfum A-skírteinis er frjálst að aka eins kröftugu hjóli og þeim sýnist.

Sýni mikla aðgát

Það er ekki að ástæðulausu að mótorhjólaréttindi skiptast í ólíka flokka og að ökumenn verði að ná vissum aldri til að fá að aka aflmestu mótorhjólunum. Kraftmikið mótorhjól kallar jú á vissa fimi og líka ákveðinn þroska enda getur glanni og gúmmítöffari á mótorhjóli bæði slasað sjálfan sig og aðra. Að því sögðu þá þykir Grétari það leiðinleg mýta að mótorhjól þyki hættuleg farartæki. „Bifhjól verður ekki hættulegt fyrr en því er ekið óvarlega og ekki í samræmi við aðstæður. Það er undir ökumanninum sjálfum komið hversu hættulega eða örugglega hann ekur.“

Bifhjólamenn þurfa að temja sér sérstaka aðgát og segir Grétar oft sagt að ökumenn mótorhjóla verði að hugsa fyrir tvo: bæði fyrir sig og fyrir aðra vegfarendur. „Munurinn á því að aka mótorhjóli og bíl er að ökumaður mótorhjóls er óvarinn í árekstri. Því miður vill það gerast að aðrir ökumenn sjá ekki aðvífandi mótorhól eða vanmeta fjarlægð og hraða hjólsins og t.d. aka í veg fyrir mótorhjólið á gatnamótum. „Á mótorhjóli þarf fólk að temja sér að vera stöðugt á varðbergi og meðvitað um hvar varasamar aðstæður gætu skapast.“

Að því sögðu þá er ekki neitt sérstaklega erfitt að læra að aka mótorhjóli og segir Grétar að nemendur þurfi yfirleitt ekki fleiri verklega tíma en lög kveða á um. „Það sem helst er verið að þjálfa í verklegu tímunum er að stjórnun hjólsins verði ósjálfráð svo ökumaður þurfi ekki að hafa hugann sérstaklega við það að skipta um gír með fætinum eða gefa inn og bremsa með höndunum.“

Kennsla og próftaka fara fram á mótorhjóli ökuskólans og hægt að fá lánaðan hlífðarbúnað. „Það er samt æskilegt að nemendur hafi a.m.k. fjárfest í eigin hjálmi og við hefjum ekki æfingatíma öðruvísi en að nemandinn sé klæddur í almennilegan hlífðarfatnað frá toppi til táar,“ segir Grétar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: