Á fyrstu sex mánuðum ársins voru fluttir inn 1.066 fólksbílar til landsins sem aðeins ganga fyrir rafmagni. Yfir sama tímabil í fyrra nam innflutningur slíkra bíla 428 eintökum. Aukningin er því 150%. Hlutdeild hreinna rafbíla af innflutningi fólksbíla stendur nú í 26,2% en var aðeins 5,9% í fyrra.
Hlutdeild bensínbíla fer úr 45,3% í 22,7% og díselbíla úr 32% í 19,6%. Sé litið til bíla sem ganga að hluta eða öllu leyti fyrir rafmagni er hlutdeildin orðin 57,2% en var 22,5% á fyrstu sex mánuðum ársins 2019.
Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju og fyrrverandi formaður Bílgreinasambandsins segir þróunina í þessum efnum mjög hraða og að nú sé að skila sér áhersla stjórnvalda á orkuskipti sem m.a. komi fram í niðurfellingu virðisaukaskatts og að tengja álagningu vörugjalda við mengunargildi bíla.
„Ég held að þessi þróun muni halda áfram og það kæmi mér ekki á óvart ef einstaklings- og fyrirtækjamarkaðurinn væri kominn 90% í þetta á næstu þremur árum.“
Jón Trausti segir að hlutfallstölurnar í ár skekkist nokkuð af þeirri staðreynd að bílaleigur hafi ekki keypt marga bíla inn á fyrri hluta ársins.
„Þær hafa af eðlilegum ástæðum haldið að sér höndum. Þær hafa ekki verið stórar í rafmagninu hingað til en það gæti breyst, ekki síst í ljósi þeirrar áherslu stjórnvalda að ýta þeim í þá átt. Þar þurfa innviðirnir að fylgja á eftir, ekki síst á Keflavíkurflugvelli.“
Samkvæmt fyrirliggjandi tölum hefur það sem af er ári verið fluttur inn 4.071 fólksbíll en í fyrra voru þeir 7.294. Mestur er samdrátturinn í bensínbílum sem nú eru 926 en voru 3.302 á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra.
Jón Trausti segir flest fyrirtæki á bílamarkaði gera ráð fyrir samdrætti á árinu.
„Það hefur verið mikill gangur í notuðu bílunum og það hefur líka sín áhrif. Salan á fyrri hluta ársins er meiri en við gerðum ráð fyrir vegna kórónuveirunnar en það má gera ráð fyrir að samdrátturinn verði einhver á þessu ári og flestir hafa búið sig undir það.“