Sala nýrra fólksbíla í maí jókst um tæp 152% miðað við maí í fyrra, en alls voru skráðir 1299 nýir fólksbílar nú en voru 516 í fyrra.
Að sögn Bílgreinasambandsins hefur salan í heildina eftir fyrstu fimm mánuði ársins aukist um 23,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 4.169 nýir fólksbílar samanborið við 3.369 nýja fólksbíla í fyrra.
Til einstaklinga seldust 444 nýir fólksbílar í maí saman borið við 370 á sama tíma í fyrra og er því aukning í sölu 20% milli ára. Það sem af er ári hafa selst 2.084 nýir fólksbílar til einstaklinga en á sama tíma í fyrra voru þeir 2.014.
Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 117 nýja fólksbíla í maí í ár miðað við 97 bíla í apríl í fyrra. Það sem af er ári hafa selst 770 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en í fyrra á sama tíma 696 og er því aukning milli ára um 10,6%.
Kia mest selda merkið
Sala til ökutækjaleiga tók heldur betur við sér í maí og seldust 733 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 47 á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári hafa verið skráðir 1293 nýir fólksbílar í ökutækjaleigu samanborið við 628 bíl í fyrra. Er aukningin 105,9%.
Nýorkubílar (rafmagns-, tvinn-, tengiltvinn- og metan-) eru 31,8% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu (rafmagn 6%, tengiltvinn 9,7% og tvinn 16,1%) en þetta hlutfall var 34,7% á sama tíma á síðasta ári.
Í maí var mest selda tegundin KIA með 237 selda fólksbíla, þar á eftir Toyota með 224 og þriðja mest selda tegundin í maí var Suzuki með 162 fólksbíla skráða.